Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Þegar fyrsta stjarnan sést á himninum eru jólin komin
Fimmtudagur 28. desember 2017 kl. 07:00

Þegar fyrsta stjarnan sést á himninum eru jólin komin

Reykjanesbær er fjölmenningarsamfélag þar sem ólíkar hefðir koma saman en Víkurfréttir fengu að skyggnast inn í líf þriggja fjölskyldna af ólíkum uppruna og spyrja þær hvernig jólahaldi sé háttað á þeirra heimili. Þá var rætt við pólska fjölskyldu um pólska jólahefð og tvær aðrar sem samanstanda af hjónum af ólíkum uppruna. Annars vegar er um að ræða spænskumælandi fjölskyldu, hjón með tvö börn, en eiginkonan er frá Kólumbíu og eiginmaðurinn frá Kosta Ríka. Hins vegar eru hjón með þrjú börn, kona sem er uppalin í Úrúgvæ og íslenskur eiginmaður hennar. Fjölskyldurnar þrjár búa allar á Reykjanesi.

Marta Żarska og Mirek, eiginmaður hennar, búa í Garði á Reykjanesi ásamt sonum sínum þremur Jakub, Oskar og Kacper. Hjónin hafa búið í rúm tuttugu ár á Reykjanesinu og alið hér upp syni sína og því blandast hefðirnar gjarnan saman yfir jólin. „Ég reyni að halda í þetta eins og það var á aðfangadagskvöld heima hjá mér. Bara einn dag,“ segir Marta en hjónunum þykir mikilvægt að synir þeirra kynnist uppruna sínum og því halda þau ávallt aðfangadagskvöld að pólskum sið. „En samt er jóladagur og annar í jólum er bara svipaður eins og hjá Íslendingum. Við borðum bara afganga og ég bæti við kjöti, hamborgarhrygg og alls konar, kjúkling eða kalkún eða hvað sem er.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Aðfangadagur hefst eldsnemma á heimili Żarska fjölskyldunnar enda er kvöldmáltíðin tólf rétta hlaðborð sem þarfnast góðs undirbúnings. Í aðalrétt eru hinir ýmsu fiskréttir ásamt mismunandi grænmetisréttum, rauðrófu- eða sveppasúpu, brauði, salati og súrkáli með sveppum. Að morgni dags er gjarnan snæddur hafragrautur og síðan er fastað yfir daginn fram að kvöldmat en fjölskyldan er kaþólsk og rækir trúna eftir fremsta megni.

Til að mynda er á hverjum föstudegi í desember snæddur fiskur sem og á aðfangadagskvöld en kjöt er ekki á boðstólum fyrr en á jóladag. „Ég er algjört jólabarn. Ég elska jólin,“ segir Marta en þau Mirek skreyta heilmikið og lýsa upp með jólaljósum. „Hann setur allt upp og ég tek það aftur niður,“ segir Marta og bætir hlæjandi við að rafmagninu slái gjarnan út á aðfangadag þegar verið er að elda. Fyrir jól þrífa þau heimilið hátt og lágt og jólakortahefðin er með svipuðu sniði og á Íslandi. Samkvæmt gömlu hefðinni er jafnan sett örlítið hey undir jóladúkinn til að minnast þess að Jesúbarnið fæddist í hlöðu og hey var lagt undir hann í jötunni. „Þetta var svona í gamla daga en ekki akkúrat núna,“ segir Mirek.  „Við borðum alltaf þegar fyrsta stjarnan sést á himninum,“ segir Marta en það er alltaf um sexleytið að kvöldi til. „Það er alltaf eitt sæti laust fyrir óvænta gesti,“ segir Marta en bætir við að það komi svo sem aldrei neinn.

Áður en borðhald hefst er siður að fara með stutta borðbæn og að minnast ársins en það gera þau með því að brjóta oblátu (opiatek) á milli sín. Sérhver heimilismaður fær sína oblátu sem tveir brjóta á milli sín og því næst eru rifjaðir upp atburðir sem gerðust á árinu, þakkað er fyrir þá og hverjum og einum er óskað gæfu og gengis. Borðhald fer fram í rólegheitum og eftir á eru bornar fram kökur og kaffi. Það eru til að mynda ostakaka, eins konar rúlluterta (makowiec) og djúpsteiktir hálfmánar (pierogi) sem fylltir eru með alls kyns góðgæti. Síðar um kvöldið snúa börnin til herbergja sinna og foreldrarnir setja gjafirnar undir jólatréð.

„Við eigum ekki svona eins og Íslendingar, þrettán jólasveina. 6. desember kemur jólasveinn með litla gjöf en þann 24. fá þau meira.“ Áður en gjafirnar eru opnaðar eru sungnir jólasöngvar en eftir á nýtur fjölskyldan þess að vera saman og ávallt er haldið til kirkju á miðnætti. Margt er augljóslega líkt með pólskri og íslenskri jólahefð en hin pólska hefur einnig töluverða sérstöðu. Þegar Marta og Mirek eru að lokum spurð hvernig þau segi gleðileg jól á pólsku svara þau: „Wesołych Świąt,“ og greinarhöfundur reynir að hafa það eftir þeim með sæmilegum árangri.