Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Þegar allir dagar eru sunnudagar  er mikilvægt að hafa rútínu
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
fimmtudaginn 31. ágúst 2023 kl. 08:15

Þegar allir dagar eru sunnudagar er mikilvægt að hafa rútínu

Ragnheiður Ásta Magnúsdóttir ætlar að taka þátt í fornbílaakstri á Ljósanótt með bónda sínum, Konráð Lúðvíkssyni. Þau munu aka um hátíðarsvæðið á gömlum Pontiac. Hún segir sumarið búið að vera dýrðlegt sólskinssumar þar sem margt hefur verið gert og margar góðar minningar skapaðar.

Hvernig varðir þú sumarfríinu?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sumarið mitt er búið að vera dýrðlegt sólskinssumar. Skemmtileg ferðalög, brúðkaup, ferming, árleg veiði með yndislegum vinum, sundmót, ferð á æskustöðvarnar, fjallkona í fjölskyldunni og sól og ylur.

Í maíbyrjun fórum við hjónin til Madeira, blómaeyjunnar, og fengum innblástur fyrir garðræktina okkar. Síðan fórum við með börnunum okkar til Akureyrar til að fylgjast með sonar- og dótturdóttur keppa á sundmóti. Í ágústbyrjun fór ég með systkinum mínum og mökum í ferð á æskuslóðir, en ég er fædd og uppalin á Flateyri, og síðan er ég á leið á Tröllaskaga með gömlum skólasystrum og mökum til að halda upp á 55 ára stúdentsafmæli.

Hvað stóð upp úr?

Góða veðrið! Það var sólskin allan tímann í öllum ferðunum. Madeira kom mest á óvart enda hafði ég ekki komið þangað fyrr.

Hvað kom skemmtilega á óvart í sumar?

Eftir langan og veðrasaman vetur og kuldakast í vor leit ekki út fyrir að gróðurinn yrði fallegur í sumar en ég held að blómgun hafi aldrei fyrr verið jafn mikil í garðinum okkar.

Áttu þér uppáhaldsstað til að heimsækja innanlands?

Við eigum sumarbústað á Ytra-Felli í Dölum og þangað förum við gjarnan enda algjör náttúruperla. Þar erum við hjónin búin að koma okkur upp sælureit. Við gerðumst skógarbændur fyrir þremur árum  svo verkefnin í Dölunum eru mörg. En ég á marga aðra uppáhaldsstaði og get ekki annað en nefnt Önundarfjörð – og svo elska ég Suðurnesin.

Hvað ætlar þú að gera í vetur?

Á mínum aldri, þegar allir dagar eru sunnudagar, þá er mikilvægt að hafa rútínu sem virkjar mann. Ég ætla fyrst og fremst að sinna fjölskyldunni og vinum. Ég er búin að taka að mér að vera forseti í kvennaklúbbi sem ég tilheyri, Inner Wheel, og þar bíða spennandi verkefni. Ég leiði stafgöngu í Sandgerði tvo daga í viku eins og undanfarin ár. Þó ég sé hætt sem sóknarnefndarformaður ætla ég að vera sjálfboðaliði í kirkjunni minni og gerast Gæðakona en það eru konur (og menn) sem búa til gæðasúpur á miðvikudögum fyrir þá sem sækja kyrrðarstundir. Ég er svo heppin að eiga góða vini og vera í ýmsum klúbbum eins og bókaklúbbi, saumaklúbbi og svo á ég stóra fjölskyldu sem ég nýt samvista við.

Hvernig finnst þér Ljósanótt?

Mér finnst Ljósanótt frábær en sú hugsun hefur hvarflað að mér að það mætti dreifa öllum þessum skemmtilegu viðburðum yfir sumarið. Ég kemst aldrei yfir að sækja alla viðburði sem ég hef áhuga á.

Hvaða viðburði ætlar þú að sækja á Ljósanótt?

U2 messu í Keflavíkurkirkju, listsýningarnar, Horfin hús, horfinn heimur á Bókasafninu.

Hver er besta minningin þín frá Ljósanótt?

Ég held ég verði að segja þegar Íslendingur sigldi um Stakksfjörð og kveikt var á Berginu í fyrsta sinn og flugeldasýningin lýsti upp himininn.

Hefur skapast hefð í tengslum við Ljósanótt, eitthvað sem þú gerir alltaf?

Kveikja á ljósum í garðinum. Við borðum með Rótarýklúbbnum á fimmtudagskvöldinu og förum svo og skoðum sýningarnar – og svo tökum við þátt í fornbílaakstrinum í gamla Pontíaknum hans bónda míns.

Stundum hef ég verið með opið hús og boðið fólki að koma og fá sér súpu og brauð með okkur en þá gefst síður tækifæri til að fara og skoða svo ég hef gert minna af því í seinni tíð.