The Wicked Strangers bar sigur úr býtum á Rokkstokk 2011
Hljómsveitin The Wicked Strangers frá Selfossi og Eyrarbakka sigraði á Rokkstokk 2011 sem fór fram í Frumleikhúsinu í Reykjanesbæ laugardaginn 29. október 2011. Kristjón Freyr var valin besta hljómsveitin af áhorfendum.
Sex hljómsveitir/hljómlistarmenn tóku þátt í keppninni að þessu sinni, Mc Narri frá Reykjanesbæ, Nine Worlds frá Reykjanesbæ, The Wicked Strangers frá Selfossi og Eyrarbakka, Kristjón Freyr frá Reykjanesbæ, Primavera frá Kópavogi og A day in december frá Reykjavík.
Dómnefndin sem skipuð var þeim Magna Frey (söngvara Tommy gun Preachers og Black earth), Vigni Bergmann (gítarleikara Júdas), Hlyni Þór (Hobbita), Gunnari Gunn. (umsjónamaður Skúrsins á Rás 2) og Fríðu Dís (Klassart) var á einu máli um að hljómsveitin The Wicked Strangers ætti sigurinn skilið eftir frammistöðu sína þetta kvöld og fékk hljómsveitin peningaverðlaun að upphæð 100.000 kr. Kristjón Freyr sem áhorfendur völdu sem besta atriði kvöldsins fékk einnig peningaverðlaun 50.000 kr.
Hljómsveitarkeppnin Rokkstokk var tekin upp af Rás 2 og verður hægt að heyra afraksturinn af því í Skúrnum sem verður sendur út á Rás 2 fimmtudaginn 10. nóvember kl. 22:00.
SamSuð, sem samstarfsvettvangur félagsmiðstöðva á Suðurnesjum, stendur fyrir Rokkstokk. Menningarráð Suðurnesja styrkti Rokkstokk 2011.
Myndir: Að ofan er sigursveitin, The wicked strangers og að neðan er Kristjón Freyr ásamt félaga sínum Arnari Ingólfssyni.