Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

The Apotheker mætir til Íslands á umbrotatímum
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 5. mars 2021 kl. 08:27

The Apotheker mætir til Íslands á umbrotatímum

Ný plata og handrit í anda útvarpsleikrits frá Smára Guðmundssyni

Náttúruhamfarir í formi eldgoss á suðvesturhorni Íslands eru í sögusviði The Apotheker, nýjasta verkefnis Smára Guðmundssonar. Plata og söguhandrit koma út í byrjun sumars en fyrsta stikla eða hljóðhorn úr verkinu var gefið út á Spotify síðasta fimmtudag. The Apotheker er í anda 90’s hrollvekju en Björgvin Guðjónsson hefur séð um grafíska vinnu við verkið og tekst vel til. Handritið að The Apotheker var skrifað fyrir um tveimur árum síðan.

„Þetta verk fjallar um apótekara sem er að reyna að sigrast á dauðanum, þegar hann kemur til Íslands fara furðulegir hlutir að gerast. Það fer til dæmis að gjósa á suðvesturhorninu svo þetta er svolítið skrýtið að þetta sé að gerast hér í náttúrunni á sama tíma og þetta verk er að koma út,“ segir Smári í samtali við Víkurfréttir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Handritið að The Apotheker tengist nýrri „consept“-plötu sem Smári er að gefa út en samhliða plötunni, sem verður bæði á stafrænu formi og vínil, verður hægt að kaupa handrit sögunnar og fólk er hvatt til að lesa handritið með hlustun á plötuna.

Á plötunni er einnig sögumaður sem kemur af og til og segir sögu verksins en handritið er yfirgripsmeira að sögn Smára. Tónlist plötunnar er í lokafrágangi þessar vikurnar fyrir útgáfu sem er áætluð 1. maí en auk hljóðhornsins sem er komið á Spotify þá er stefnt að því að koma öðru lagi út fyrr. Það er einmitt lagið þar sem fjallað er um komu apótekarans til Íslands og eldsumbrotin verða.

Handritið að The Apotheker er að mestu skrifað í Berlín en handritsgerðin hófst í samkomuhúsinu í Sandgerði. „Ég byrjaði í samkomuhúsinu en fór svo til Berlínar og vann þetta með grískum verðlaunahandritshöfundi. Þetta verkefni er skrifað sem útvarpsleikrit og verður sett upp þannig með plötunni. Það verður hægt að kaupa plötuna eina og sér eða plötu og handrit í einum pakka“.

The Apotheker fjallar, eins og áður segir, um apótekara sem reynir að sigrast á dauðanum með því að blanda saman ýmsum efnum. „Hann er búinn að vera að flakka um heiminn að leita að þessari formúlu til að sigrast á dauðanum. Bróðir hans, sem er lögreglumaður, er á eftir honum en báðir eru þeir helteknir af dauðanum eftir að foreldrar þeirra létust af slysförum þegar þeir bræður voru barnungir og voru þá aðskildir. Apótekarinn er efnafræðingur og fer á flótta til Íslands til að geta haldið áfram með tilraunir sínar en sagan hefst þegar hann kemur til landsins og hamfarir ríða yfir. Eldfjöll gjósa með eiturgufum úr jörðinni,“ segir Smári um söguna sem hann hefur sett á blað og samið tónlist við. Aðspurður hvort sagan sé að gerast í nútímanum segir Smári að ártal komi ekki fram. Sé rýnt í söguna megi sjá að hún gerist í kringum aldamótin 1800 en hún gæti allt eins átt sér stað í nútímanum.

Grunnurinn að plötunni er tekinn upp í Smástirni í Sandgerði. Þaðan fór Smári með verkefnið til Stefáns Arnar Gunnlaugssonar, íkorna í Studio Bambus, sem stjórnaði upptökum og spilar á hljómborð og hljóðgerfla. Þorvaldur Halldórsson úr hljómsveitinni Valdimar spilar á trommur. Fríða Dís Guðmundsdóttir syngur og Viktor Atli Gunnarsson, sem starfaði með Smára í Mystery Boy, spilar á gítar. Brian Stivale er röddin eða sögumaður á plötunni. Hann starfar sem „Voice Actor“ hjá Disney og Marvel. Sigurdór Guðmundsson í Skonrokk studios masterar plötuna.