Þau stóðu vaktina í ár
Víkurfréttir kíktu við hjá þeim sem sinntu almannaþjónustu á aðfangadagskvöld í ár.
Flestar fjölskyldur eiga kost á að verja aðfangadagskvöldi saman og þekkja ekkert annað. Í sumum fjölskyldum eru þó pabbi, mamma eða jafnvel systkini á vakt þetta kvöld.
Nokkrar starfsstéttir standa vaktina allan sólarhringinn, allan ársins hring. Meðal þeirra eru slökkviliðsmenn, sjúkraflutningamenn, lögreglumenn og starfsfólk á sjúkrahúsum.
Víkurfréttir litu við hjá Brunavörnum Suðurnesja, Lögreglunni á Suðunesjum og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í gærkvöldi. Þar var starfsfólk í jólaskapi og menn og konur orðin vön því að vinna á þessum tíma.
Á HSS var allt gert til að hafa allt sem heimilislegast fyrir starfsfólk, sjúklinga og aðstandendur. Jólaleg hlýja og friður einkenndu andrúmsloftið þar og fimm af starfsmönnum gáfu sér tíma til að stilla sér upp fyrir blaðamann.
B-vakt sjúkra- og slökkviliðsmanna hjá Brunavörnum Suðurnesja var skipuð sama fjölda og á venjulegu kvöldi, enda ávallt reiðubúnir ef eitthvað kemur upp á. Meðal verkefna þeirra þetta kvöld var að aka sjúklingi milli landshluta. Þeir óskuðu þess að Suðunesjamenn, sem og landsmenn allir, færu varlega með eld og rafmagn yfir hátíðirnar.
Hjá lögreglunni voru átta á vakt en skiptust á að vera á staðnum. Tveir voru á stöðinni þegar blaðamann bar að garði en hinir heima, reiðubúnir með talstöð við höndina til skjótast í útkall. Kvöldið var annars frekar rólegt hjá lögreglunni eins og langflest aðfangadagskvöld. Annar þeirra sem voru á staðnum, Skúli, var að fara að leggja af stað til að kíkja til 18 mánaða afastráks síns sem var lasinn þetta kvöld.
Skúli Björnsson og Þórir Þorsteinsson.