Þátttakendur í Hönnun í útflutning og halda á Íslendingaslóðir í Vesturheimi
Fyrirtækið Raven Design í Reykjanesbæ er eitt átta fyrirtækja sem tekur þátt í þróunarverkefninu Hönnun í útflutning sem nú er komið á fullt skrið en verkefnið er leitt af Íslandsstofu í samstarfi við Hönnunarmiðstöð Íslands, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Samtök iðnaðarins.
Markmið verkefnisins er að leiða saman hönnuði og fyrirtæki í samvinnu um hönnun og framleiðslu á útflutningsvörum. Þátttakendur í verkefninu munu fá framlag að upphæð 500.000 kr. til að standa straum af hönnunarkostnaði, gegn a.m.k. jafn háu mótframlagi fyrirtækisins.
Fyrirtækin sem taka þátt í verkefninu eru Amivox, Bjarmaland, Glófi, Matorka, Raven Design, Saga Medica, Sif Cosmetics og Triton.
Fyrirtækið Raven Design ehf. var formlega stofnað í febrúar 2009 en það er í eigu hjónanna Huldu Sveins og Hrafns Jónssonar. Áður höfðu þau selt vörur sínar undir nöfnunum HH Handverk og Icedesign frá 1999-2009.
Verkefnið sem Raven Design fékk stuðning til er vegna vöru- og umbúðaþróunar fyrir erlendan markað.
Fyrirtækið hannar og framleiðir eigið handverk, og eru yfir 80 vörutegundir sem búnar eru til úr leðri, plexígleri, grágrýti og við. Eigendur fjárfestu í og fluttu inn leiserskurðarvél sem öll hönnun og skurður er unnin í. Raven Design er með sínar vörur til sölu á helstu hönnunar- og ferðamannastöðum landsins svo sem Kraum, Þjóðminjasafni Íslands, Gullfoss og Geysi, Rammagerðinni, Leifsstöð og fleiri stöðum. Undanfarin ár hefur Raven Design verið valið inn á stærstu handverkshátíðir og sér-sýningar eins og t.d. hjá Handverk og hönnun og Handverkshátíð Hrafnagils. Framleiðsla og söluhagnaður hefur tvöfaldast síðastliðin tvö ár og árið í ár á eftir að toppa allar tölur ef spár Ferðamannaráðs um tölu ferðamanna ganga eftir.
Raven Design er með sterka skírskotun til Íslands í vörum sínum, bæði sérstöðu landsins í lögun, íslenskra ljóða og þjóðsaga. T.d. má nefna leðurarmband sem kallast Laufás. Þar er Raven Design að tengja mynstur við skraut frá kirkjuhurð í Eyjafirði sem talið er að sé frá 13. öld og varðveitt er á Þjóðminjasafni Íslands. Einnig er hægt að fá hálsmen og eyrnalokka úr leðri í stíl við armbandið. Raven Design hefur einnig hannað og framleitt jólaóróa síðan 2004 sem hlotið hafa verðskuldaða athygli, og er hannaður nýr órói á hverju ári. Þar er einnig tenging við hefðir eins og laufabrauðsskurð, hugljúf og hvetjandi skilaboð svo sem: „Vonarstjarna, horft til framtíðar“ og „Ást og englar allt um kring“.
Fyrirtækið Raven Design hefur farið ört vaxandi, sölustaðir eru nú yfir 20 talsins og fer fjölgandi sérstaklega yfir ferðamannatímann. Markaðurinn fer einnig vaxandi og búist er við að árið 2011 verði metár þegar kemur að minjagripasölu og handverki.
Fyrirtækið selur til smásöluaðila og þörf er á fallegum umbúðum fyrir vörurnar sem undirstrikar fallegt innihald, jafnvel með tengingu til Íslands og úr endurunnu efni. Fyrirtækið tekur einnig þátt í beinni markaðssetningu með þátttöku á ýmsum mörkuðum og mannamótum. Raven Design mun því á næstu misserum vinna með iðnhönnuði að gerð umbúða fyrir vörur fyrirtækisins.
Þau Hulda og Hrafn verja öllum sínum stundum í fyrirtækið og framleiðsla og sala gripa stendur yfir alla daga. Þátttaka í handverkshátíðum er fyrirtækinu mikilvæg og um verslunarmannahelgina verður Raven Design á risastórri Íslendingahátíð í Gimli í Kanada. Árlega mæta um 50.000 manns á hátíðina en þau Hulda og Hrafn hafa tryggt sér góðan sýningar- og sölubás þar sem þau verða með vörur sínar. Þau segjast hafa fengið mikil og góð viðbrögð frá Kanada en í ár eru þau eina íslenska fyrirtækið sem verður á hátíð Vestur-Íslendinganna.
Mynd:Hilmar Bragi