Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Þriðjudagur 5. febrúar 2002 kl. 09:55

Þarfur og frábær fyrirlestur um einelti

Foreldrar flykktust í Heiðaskóla í gærkveldi til að heyra og sjá Stefán Karl Stefánsson, leikara, fjalla um einelti. Stefán hefur verið á ferð um landið síðustu árin og bæði rætt við börn og fullorðna. Umræða um einelti er alltaf þörf, einelti verður alltaf til, og við verðum að finna okkar eigin leið til að fást við það.Stefán Karl gerir þetta allt í sjálfboðavinnu með það eitt að markmiði að fræða fólk svo færri verði gerendur og þolendur eineltis, eins og hann var sjálfur á sínum yngri árum. Blaðamaður hitti Stefán Karl að máli og spurði hvað hann væri að gera?

„Ég er bara að vaða á milli skóla og halda eineltisfyrirlestra og legg mikla áherslu á heimilin og tengsl heimilis og skóla, að það ríki friður þar á milli en ekki stöðugt stríð. Þessar tvær „stofnanir" þurfa náttúrulega að vinna saman frekar en gegn hvor annarri, sérstaklega þegar upp koma mál eins og eineltismál, þar sem það hefur sýnt sig að hvorki bara heimilin eða bara skólinn geta tekið á þassu máli, báðir aðilar hafa sína ábyrgð. Skólinn fylgist með krökkunum á meða þau eru þar en foreldrarnir þegar þau eru heima og fyrirlesturinn minn gengur svolíti mikið út á þetta að skamma foreldrarna fyrir að vanrækja börnin sín. Það er nokkuð sem ég hef orðið var við, að vanræksla í þjóðfélaginu er aukið vandamál og það er sökum þess að fólk vinnur of mikið og er allt of lítið heima. Ég vil fá aftur fílinginn þegar ekkert sjónvarp var á fimmtudögum og ekki í heilan mánuð á sumrin og fólk bara talaði saman."

Af hverju ertu að þessu?
„Af hugsjón bara, ég varð fyrir þessari reynslu í mörg ár þegar ég ver yngri og þekki afleiðingarnar af einelti, þetta er eitthvað sem fylgir manni alla ævi. Ég hef horft uppá börn deyja, falla fyrir eigin hendi vegna afleiðinga eineltis, samt virðist fátt vera hægt að gera nema bara að sameinast gegn þessu og halda utanum hvert annað. Gera heimilin þannig að þú megir gera mistök og hafir leyfi til að vera þú sjálfur án þess að það sé eitthvað gagnrýnt eða skoðaða á einhvern hátt," sagði Stefán Karl að lokum og hóf að messa yfir foreldrunum sem voru mættir til að hlusta á hann.

Fyrirlestur Stefáns er ekki mjög formlegur, heldur fer hann úr einu í annað og fer með fólk í gegnum allan tilfinningaskalann. Hópurinn sem var mættur til að hlusta á hann í Heiðarskóla í gærkveldi upplifði hlátur, og sumir fengu tár í augun þegar Stefán sagði frá því sem hann hafði séð í baráttu sinni við eineltið. Hér fyrir neðan eru myndir frá fyrirlestrinum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024