Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Þangálfar lifna við í Þekkingarsetrinu
Eydís Mary Jónsdóttir, Reynir Sveinsson, umsjónarmaður sýninga og Katrín Þorvaldsdóttir.
Sunnudagur 22. mars 2015 kl. 09:00

Þangálfar lifna við í Þekkingarsetrinu

Sýning um hafið opnar á sunnudaginn.

„Það var þarinn sem leiddi okkur saman. Katrín kom til mín í heimsókn þegar ég vann í Náttúrustofu Suðvesturlands og var að vinna verkefni um fjörunytjar. Þegar ég svo byrjaði að vinna hjá Þekkingarsetrinu kemur upp sú hugmynd að setja upp listasýningu á neðri hæðinni. Mér dettur Katrín strax í hug og bið hana að lána okkur nokkrar grímur. Hugmyndin breyttist og úr varð fræðslu- og listasýningin Huldir heimar hafsins - ljós þangálfanna sem mun opna nú á sunnudaginn,“ segir Eydís Mary Jónsdóttir, staðgengill forstöðumanns Þekkingarseturs Suðurnesja í Sandgerði.
 
 
Framlag til að hlúa að náttúrunni
Katrín Þorvaldsdóttir, búningahönnuður og brúðugerðameistari, vinnur mikið með þara og hefur gert síðustu þrjá áratugi. „Á sínum tíma leitaði ég að uppruna brúðunnar og sótti hugmyndir mínar í náttúruna og heim þjóðsagnanna sem leiddi til þess að ég byrjaði að vinna með þarann sem efnivið m.a. í sviðsmyndir, grímur og brúður. Lífið kviknaði í hafinu og á svo margan hátt heldur það enn lífinu í okkur, því sé ég hafið sem hið mikla móðurlíf Jarðarinnar. Ég lít á sjálfa mig og mannkynið allt sem órjúfanlegan hluta náttúrunnar enda eru lífgæði okkar beintengd tengingu okkar við náttúruna. Þegar við göngum á náttúruna erum við að eyðileggja okkur sjálf og það grunnlag sem tilvera okkar byggist á. Því er svo mikilvægt að við lærum að vinna með náttúrunni en ekki á móti henni,“ segir Katrín og bætir við að þarinn sé einmitt eitt af undraefnum náttúrunnar sem auðvelt sé að nýta á vistvænan hátt. 
 
 
Grunnur í hönnun og tísku
Þær stöllur segja að þangálfar séu birtingarmynd náttúrunnar, rétt eins og blómálfar. Í gegnum álfana geti maðurinn fundið samhljóm með náttúrunni sem sé grundvöllur þess að vinna með henni. „Náttúran er ótrúlega máttug og ef við kjósum að vinna með henni, en ekki gegn henni, getum við áorkað svo miklu. Enda er grunninn að eiginlega öllu sem við hugsum og gerum að finna í náttúrunni; hönnun, tísku, húsagerð og tækni. Náttúran er allt um kring.“
 
 
Ekki of seint að snúa við
Skilaboð sýningarinnar er að maðurinn er hluti af náttúrunni og án náttúrunnar getum við ekki verið. „Hafið hefur gríðarleg áhrif á lífsgæði okkar og tilveru almennt. Hafið og lífríki þess gegnir mörgum gríðarlega mikilvægum hlutverkum, til dæmis fyrir hringrás vatns, hita og næringarefna, fyrir veðurfar auk þess sem hafið er gríðarlega mikilvæg uppspretta fæðu og ýmissa hráefna sem við nýtum okkur dags daglega. Okkar kynslóð hefur í höndum sér framtíð hafsins eins og við þekkjum það. Ef við höldum áfram að spúa kolefni upp í andrúmsloftið og sýra hafið, eyðileggja búsvæði og menga hafið t.d. með plasti, munum við enda með að valda vistfræðilegu hruni sem mun hafa gríðarleg áhrif á komandi kynslóðir og möguleika þeirra til að lifa góðu lífi hér á Jörðinni. Góðu fréttirnar eru samt þær að við erum enn ekki of sein til að breyta um stefnu. Við getum komið í veg fyrir eyðileggingu hafsins, heims þangálfanna, en við þurfum að hafa hraðar hendur,“ segir Eydís.  
 
Ýmsir möguleikar fyrir börnin
Þekkingarsetrið tekur á móti miklum fjölda skólabarna og annarra fróðleiksfúsra gesta og Eydís segir að ætlunin sé að nýta sýninguna og þangálfanna til að miðla fróðleik um hafið og þær hættur sem að því steðja til gesta setursins. „Vonandi getum við með þessari sýningu vakið fleira fólk til vitundar um þann undraheim hafið er og verið því hvatning til að vernda það og ganga betur um það“, segir Eydís.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024