Þakklátir og svangir Suðurnesjamenn á Langbest
Þakkargjörðardagurinn var haldinn hátíðlegur í Bandaríkjunum í gær. Margir eru augljóslega hrifnir af matnum sem boðið er uppá í kringum þessa amerísku hátíð og það sýndi sig svo sannarlega á veitingastaðnum Langbest á Ásbrú í gærkvöldi. Þar bauð Ingólfur Karlsson upp á kalkún og fyllingu og allt það sem tilheyrir hefðbundnum þakkargjörðarmat.
Troðið var út úr dyrum og ljóst að Íslendingar eru hrifnir af matnum hjá Ingólfi. Þegar Víkurfréttir slógu á þráðinn til Ingólfs nú fyrir hádegi var hann enn að jafna sig enda stóð hann vaktina í 13 klukkustundir og skar kalkún ofan í svanga Suðurnesjamenn en boðið var upp á heilbakan kalkún í smjöri, Savory ofnbakaða stuffingu, Sykurgljáðar kartöflur með sykurpúðum, brúnkál, soðsósu, Waldorfsalat, gulrætur og sveppi í appelsínugljáa, heimalagaða trönuberjasultu, hvítlaukskartöflumús og maískorn.
„Þetta var bara algjört met og ég hafði varla undan að skera fuglinn, fólk virðist vera alveg ótrúlega ánægt með þetta framtak“ sagði Ingólfur sem lærði á sínum tíma að matreiða Þakkargjörðarmat á ameríska mátan hjá Varnarliðinu og er því öllu vanur. „Maður sá að margir sem hafa verið í námi í Banadaríkjunum komu að heimsækja okkur og svo voru körfuboltamennirnir mættir með tárin í augunum til þess að slá á mestu heimþrána,“ en þeir Bandaríkjamenn sem leika með körfuboltaliðum Suðurnesja hafa sennilega verið þakklátir fyrir veglegt hlaðborð á Langbest í gær.
„Í fyrra komu um 150 manns en nú komu um 250 manns til okkar í hádeginu og um kvöldmatinn, ég bjóst ekki við svona viðtökum verð ég að segja,“ en þetta er þriðja árið sem Ingólfur býður upp á mat af þessu tagi og ekki ólíklegt að þessi hefð sé nú komin til að vera hér á svæðinu.
Myndir: [email protected]