Þættir í þjóðmenningu og uppeldi kynslóða að hverfa
– segir Ólafur Ragnar forseti í viðtali við Víkurfréttir
„Óli Skans var búsettur á Bessastaðanesinu og þar er ennþá hægt að sjá torfrústirnar af hans bæ. Í bókhlöðunni, þar sem ég held marga fundi við veglegt borð sem þjóðin þekkir kannski best sem ríkisráðsborðið, er elsta borð í notkun í landinu að ég tel. Það eru tvær fallbyssukúlur á borðinu sem fundust í Skansinum og tengjast Trykjaráninu með vissum hætti. Þegar krakkar og ungt fólk kemur í heimsókn á Bessastaði finnst þeim margt merkilegt á staðnum og ekki síst fallbyssukúlurnar. Þegar ég kom fyrst til Bessastaða sagði ég þeim stundum þessa sögu með Óla Skans. Ég tók svo eftir því fyrir átta eða níu árum þegar ég var að segja þessa sögu að það voru engin viðbrögð. Ég sagði: „Þið hafið auðvitað heyrt um Óla Skans?“ en það kom í ljós að svo var ekki. Það sem var alveg samgróið mörgum kynslóðum að dansa Óla Skans og syngja um Óla Skans og Völu konu hans, það var bara, án þess að nokkur hafi ákveðið það, að hverfa. Mér fannst það eiginlega merkilegt hvernig þáttur í þjóðmenningu og uppeldi kynslóða gæti horfið allt í einu,“ segir Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands í viðtali við Víkurfréttir, spurður um forsögu þess að hann hvatti til að Óla Skans og öðru úr þjóðmenningunni væri gert hærra undir höfði.
„Þegar kennararnir úr Heiðarskóla komu í heimsókn til Bessastaða, þá sagði ég þeim þessa sögu og kvartaði svolítið undan því að leikskólarnir og grunnskólarnir pössuðu ekki að varðveita þennan arf. Þau tóku þessari áskorun og sendu mér svo skilaboð um að nú væru bara allir í skólanum farnir að dansa Óla Skans og buðu mér að koma. Ég gat ekki annað en komið og verið vitni að þessum frábæra dansi sem, eins og ég sagði hér áðan við athöfnina, að væri Íslandsmet því aldrei hafa jafn margir og jafn ungir dansað Óla Skans. Það var gaman að sjá hvernig krakkarnir tóku þennan dans og voru ánægð. Það var gaman að sjá hvernig allir dönsuðu saman, strákar við stráka, stelpur við stelpur og strákar við stelpur“
- Þessi dans er þannig að það geta allir dansað hann.
„Það var einmitt það sem mér fannst hér í dag og ég mundi frá mínu uppeldi. Kannski er það ástæðan fyrir því að dansinn var svona vinsæll hér áður fyrr að það gátu allar kynslóðir dansað hann og kynslóðir gátu sameinast í dansinum. Hann er tiltölulega auðveldur og í honum er einnig saga um ákveðna persónu og hans örlög. Það fannst mér einnig skína úr augum krakkanna hérna í dag. Fyrst skólinn hefur ákveðið að taka mark á forsetanum, sem ekki allir gera, þá varpaði ég fram þeirri óska að þetta verði árlegur viðburður hérna í skólanum“.
- Og því var vel tekið.
„Því var vel tekið en nú eigum við eftir að sjá hvort að það verður efnt. Þið kannski komið hér að ári og gangið úr skugga um það“.