Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Það þarf að toga þetta allt upp úr djúpum polli
Sunnudagur 26. mars 2017 kl. 06:00

Það þarf að toga þetta allt upp úr djúpum polli

Söngvaskáldið Magnús Þór Sigmundsson

Magnús Þór Sigmundsson er síðasta söngvaskáld vetrarins sem fjallað verður um í Hljómahöll en hann er maður orðanna þótt best finnist honum að þegja. Hann þagði einmitt mikið með Jóhanni Helgasyni fóstbróður sínum og félaga í tónlistinni og best finnst honum að láta lögin koma til sín, þegar þau eru tilbúin.

Magnús Þór er alinn upp í Höskuldarkoti og hreinræktaður Njarðvíkingur. Hann fékk snemma viðurnefnið Maggi villingur en seinna breyttist það í Maggi morðingi. „Það er saga að segja frá því,“ segir Magnús. „Við félagarnir höfðum náð stóðhestum sem gengu lausir um hverfið en þá reyndi Gunnar í smiðjunni að taka hestinn minn. Ég varð öskureiður, greip hníf og kastaði að honum. Hnífurinn stakkst í rif Gunnars og sat þar fastur - og þar með var viðurnefnið komið,” segir Magnús Þór og glottir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Við erum stödd á heimili hans í sveitinni í Hveragerði þar sem hann hefur búið undanfarin ár ásamt eiginkonu sinni, Jenný Borgedóttur, og nokkrum ferfætlingum. Það dugar ekkert minna en eðalkaffi þegar gesti ber að garði úr forláta ítalskri kaffivél og Magnús skenkir stoltur í bollana.

Þegar hann er spurður út í æskuárin í Njarðvík eru sögurnar margar og kemur þar rígurinn á milli Keflavíkur og Njarðvíkur nokkuð við sögu.


Skutu úr teygjubyssu til Keflavíkur
„Eitt sinn gerðum við strákarnir í hverfinu tilraun til þess að búa til risavaxna teygjubyssu, úr hjólastöng af herflugvél. Tilgangurinn var að skjóta úr henni til Keflavíkur. Við náðum í bílslöngu og settum stiga upp að byssunni því hún var svo stór - en skotið dreif aðeins nokkra metra okkur til mikilla vonbrigða,“ segir Magnús. „Eitt sinn henti einhver grjóti í rúðuna í hreppstjórabústaðnum hjá afa. Eftir það vildu dúfurnar fara inn í risið og endaði það á því að þar héldu til hundruð dúfna sem margir vildu eiga, en alltaf sagði karlinn nei. Ég fékk leyfi til þess að ná í eina og eina dúfu og gera mér kofa en eitt skiptið var búið að ræna öllum dúfunum. Það var þá helvítis Keflvíkingunum um að kenna og að sjálfsögðu átti að berja þá,” segir Magnús Þór og hlær.

Magnús hafði alltaf áhuga á tónlist og þar hafði faðir hans, Sigmundur Baldvinsson mikil áhrif. „Pabbi lék á munnhörpu bæði færeysk, norsk og íslensk lög. Honum þótti gott að fá sér neðan í því og sat þá í stólnum sínum og lék ýmist á munnhörpuna og stundum á banjó. Það var dásamlegt að sitja í fanginu á honum en frá honum kom gæskan, skilningurinn og stóra tilvistin,” segir Magnús en að hans mati var móðir hans, Anna Magnúsdóttir, umhyggjan. „Hún var sú sem hafði áhyggjur.”

Háseti á mótorbátnum Mumma
Um 10 ára aldurinn var Magnús farinn að hlusta á ameríska tónlist ofan af Velli. Hann lá yfir henni og skildi mjög fljótt þriggja hljóma tónhendingar og hvað átti við. „Þá réði ég mig sem háseta á mótorbátinn Mumma 17 ára gamall. Þar var ég með gítar sem gat spilað allt þótt hann væri bara með þrjá strengi. Þegar aðeins tveir dagar voru eftir af vertíð fékk ég mikið músikóþol og sagði við Spanna skipstjóra: þegar við komum í land ætla ég að hætta og gerast tónlistarmaður. Hann hló að þessu og spurði hvort ég gæti ekki klárað vertíðina,” segir Magnús en hann sagði honum söguna seinna þegar hann var orðinn tónlistarmaður.

Kynntist Jóhanni í skurði
Faðir Magnúsar var maður fárra orða og Magnús lærði snemma að skemmtilegasta tungumálið var án orða. Magnús og Jóhann Helgason áttu einmitt þannig tilvist - þeir þögðu mikið saman.

„Ég kynntist Jóhanni ofan í skurði. Hann var að moka skurð frá Keflavík til Njarðvíkur og ég öfugt, þetta var eitthvað sameiginlegt bæjarfélagsverkefni. Ég veit ekki hvað átti að leggja í skurðinn, við vorum að bera sand í hann og mættumst þar. Þar stóðum við með skóflurnar og þögðum mikið,” segir Magnús Þór kankvís. „Svo sagði hann við mig: Já, heyrðu við erum í hljómsveit. Ég sagði honum að ég væri nýbúinn að læra innganginn af Tired of Waiting for You með Kinks á rafmagnsgítarinn minn og fékk að koma á æfingu. Það sló í gegn hjá hljómsveitinni og ég var kominn í Nesmenn.”

Samstarf Magnúsar og Jóhanns átti eftir að verða farsælt og milli þeirra ríkir enn í dag góður skilningur og vinátta sem krefst einskis. „Það var mikill áhugi á tónlist í Keflavík og það voru miklu fleiri í músík heldur en fótbolta. Samkeppnin var mikil en við Jóhann höfðum vit á því að keppa við hvorn annan. Um leið og ég samdi lag hringdi ég í Jóa og svo hringdi hann í mig. Ég söng alltaf háu röddina og hann lágu en svo snerist það við,” segir Magnús og hlær þegar hann sér viðbrögð spyrjanda.

Change ævintýrið og „meik-draumar“
Ómar Valdimarsson blaðamaður hafði frétt af piltunum og kom þeim á framfæri við framhaldsskólana þar sem þeir urðu mjög vinsælir. Þeir félagar gáfu út plötuna Magnús og Jóhann og urðu gríðarlega vinsælir á Íslandi eða eins og Magnús Þór orðar það, stórir fiskar í lítilli tjörn. Því leitaði hugurinn út fyrir landsteinana.

„Jói var nýbúinn að semja lag Yaketi Yak og sagði við mig: Maggi, ég ætla að semja hit sem við fáum samning fyrir - og ég sagði bara já. Eigandi Studeo Orange heillaðist af laginu og sagði strax: I want to make a deal with you guys. Við skrifuðum undir samning en þegar við vorum komnir heim kom í ljós að við fengum 1% af ágóðanum.” Þeim félögum tókst þó að losna undan samningnum og fengu annan betri. Þá fluttu þeir út og hljómsveitin Change varð til. En heimsfrægðin lét bíða eftir sér. „Change ævintýrið var alveg svakalegt. Allt í einu voru komnir ljósmyndarar og við klæddir í háhælaða skó og sérhannaða Bay City Rollers galla. Þetta var það skelfilegasta sem ég hef lent í en ég lét undan fyrir væntanlega frægð sem aldrei kom.”

Magnús Þór ásamt eiginkonu sinni, Jenný.

Álfar og menn slá í gegn á Íslandi
Magnús Þór ákvað að dvelja áfram á Englandi þegar hljómsveitin Change leystist upp árið 1975 og reyna fyrir sér sem lagasmiður og flytjandi. Á þessum tíma komst hann yfir ljóðabókina The Legend of the Gnomes eftir Colin Stone. Magnús hringdi í höfundinn sem hafði mikinn áhuga á álfum og öðrum huldum vættum og sagði honum að hann væri búinn að semja lög við ljóð úr bókinni. Reynt var að vekja áhuga enskra útgefanda á efninu en án teljandi árangurs. Magnús gafst ekki upp og ákvað að leyfa íslenskum útgefendum að heyra lögin en þeim fannst efnið of þungt. „Ég náði svo eyrum Björns Valdimarssonar hjá hljómplötudeild Fálkans sem var með á nótunum en hann vildi að ég snaraði textunum yfir á Íslensku. Þá fékk ég Hafliða Vilhelmsson rithöfund með mér í verkið og urðu textarnir til við eldhúsborðið yfir kaffibolla.”

Verkið tók eigin stefnu þegar farið var að vinna með textana á íslensku. Nýir textar byggðust til dæmis á þjóðlegum hefðum, vangaveltum um dulda krafta í náttúrunni og samhengi hlutanna á heimsvísu.
Magnús leitaði til vinar síns Jóhanns Helgasonar þegar kom að upptökum til að syngja nokkur lög á plötunni.

Þegar Magnús kom aftur heim var Jói í Lummunum og honum þótti allt hallærislegt. Hann var sjálfur kominn á fullt í álfana og mörgum til undrunar sló platan í gegn. Hann var afkastamikill lagahöfundur og samdi meðal annars mikið af tónlist fyrir börn og má þar nefna Óla prik og Póstinn Pál. „Þetta varð svo vinsælt að ég komst ekki undan þessu, krakkahópar börðu á hurðina og þegar ég kom til dyra var bent: Þetta er hann. Þá hrundi allur popparahamurinn af mér eins og glerbrot.”

Hundur sækir bein
Magnús Þór notar  ákveðna tækni þegar hann er að semja. „Ég bíð eftir textunum og kalla á þá. Þetta er ákveðin tækni sem ég kalla hundinn, því þú lætur hundinn ná í beinið,” segir Magnús Þór og brosir. „Þú elur með þér skoðun eða hugsun sem þú vilt segja og þaðan kemur lagið og textinn. Oft kemur þetta í línulaga röð og svo hefst leiðindavinnan við að vinsa úr, henda úr orðum og setja önnur í staðin. Oft finnst mér best að byrja i miðjunni og vinna mig út frá því.”

Magnús Þór grípur nú í gítarinn og tekur lagið til að útskýra og áður en við vitum af erum við stödd á stofutónleikum þótt þeir séu reyndar í eldhúsinu og við reynum að leggja kaffibollana varlega frá okkur til þess að trufla ekki þennan lágstemmda og innilega flutning. Erum saman bak við orðin í smá stund. Meira að segja kötturinn er kominn upp á borð til þess að njóta þessara kræsinga.

Þegar Magnús Þór dvaldi á Englandi og hugurinn leitaði heim gluggaði hann oft í ljóð Margrétar Jónsdóttur. Ljóðin leituðu á hann þegar hann var kominn heim og gaf hann út plötu með lögum sem samin voru við texta Margrétar, þar á meðal var lagið Ísland er land þitt. Sumir vilja kalla það þjóðsöng Íslands og var flutt þingsályktunartillaga þess efnis sem var þó ekki samþykkt. Magnúsi sjálfum fannst það ekki skipta neinu máli. „Þjóðsöngurinn okkar er flottur,” segir hann.
Magnús Þór var eitt sinn beðinn um að spila lagið í skóla í Reykjavík ásamt öðrum lögum og fannst börnunum lang merkilegast að hann skyldi vera lifandi. „Þau héldu að ég væri löngu dauður maður,” segir Magnús Þór og hlær.

„Change ævintýrið var alveg svakalegt. Allt í einu voru komnir ljósmyndarar og við klæddir í háhælaða skó og sérhannaða Bay City Rollers galla. Þetta var það skelfilegasta sem ég hef lent í en ég lét undan fyrir væntanlega frægð sem aldrei kom,” segir Magnús.

Magnús Þór er enn að og oft er leitað til hans um samstarf. Hann hefur ný lokið við að taka upp plötu með hljómsveitinni Árstíðir og þá mun hann gefa út á árinu klassíska píanóplötu. Hann leyfir okkur að heyra smá tóndæmi og er greinilega mjög spenntur fyrir verkefninu. Honum finnst enda erfitt að staldra við hugmyndir og gerðir sem er lokið.

„Það er skemmtilegast að fjalla um það sem er núna í tíma. Það þarf að toga þetta allt upp úr djúpum polli og oft er það sem er undirliggjandi og á bak við hugsanir og orð sem er mikilvægara en það sem þú hugsar og segir - en þú þarft að hafa fyrir því að skynja þennan veruleika.“

Tónleikarnir um Magnús Þór verða í Bergi í Hljómahöll sunnudaginn 9. apríl klukkan 20:00.

Texti: Dagný Maggýar