Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Það sem gerir jólin eru allar hefðirnar og samverustundir fjölskyldunnar
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 12. desember 2020 kl. 09:19

Það sem gerir jólin eru allar hefðirnar og samverustundir fjölskyldunnar

Hildur Sigurðardóttir er heimavinnandi ásamt því að vera hótel- og veitingahúsarekandi með eiginmanni sínum. Hildi hlakkar til að njóta jólanna með fjölskyldunni og barnabörnum.

– Ertu mikið jólabarn?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

,Já, hef alltaf haft gaman af jólunum og sú tilfinning bara eykst hjá mér með hverju árinu sem líður. Ég hlakka mest til að njóta jólanna með fjölskyldunni og barnabörnum mínum Ísabellu Ósk, Alexander Helga og Óskari Erni. Jólin eru hátíð barnanna og bros þeirra eru án efa töfrar jólanna.“

– Fóru jólaljósin fyrr upp í ár en í fyrra?

„Það sem snýr að mér hefur aldrei verið gert eins snemma og í ár en við lýsum alltaf upp hótelið áður en heimilið er klárað.“

– Skreytir þú heimilið mikið?

„Ég hef eignast marga fallega jólamuni í gegnum tíðina og marga mjög persónulega. Hef mjög gaman að skreyta og minnast þeirra sem gerðu hlutina, gáfu eða skildu eftir sig. Þessar minningar skapa sanna jólagleði.“

– Áttu einhverja sérstaka minningu frá jólum?

„Á margar fallegar minningar þegar dæturnar okkar fjórar voru litlar en jólin í fyrra, þar sem ég fékk foreldra mína í heimsókn til okkar í Florida, voru bæði yndisleg og eftirminnileg. Sé fyrir mér að vera þar oftar í framtíðinni með sem flestum í fjölskyldunni.“

– Hvað er ómissandi á jólum?

„Það sem gerir jólin eru allar hefðirnar og samsverustundir fjölskyldunnar. Hjá okkar fjölskyldu er alltaf stór kalkúnn á borðum og undirbúningurinn er ekki síður mikilvægur en fyrsti munnbitinn.“

– Hvað finnst þér skemmtilegast um jólahátíðina?

„Heimsóknir til vina og fjölskyldu eru stór partur af jólahátíðinni sem og samvera í bústaðnum okkar við Meðalfellsvatn – en sem hóteleigendur hafa engin jól verið án vinnu en þar, eins og heima, er nú allt orðið jólalegt og fallegt svo jólaandinn helst þar líka.“

– Bakar þú fyrir jólin og hvað þá helst?

„Þrátt fyrir að hafa farið í Hússtjórnunnarskóla Íslands og þar lært bæði að baka, elda og það helsta sem tengist heimilsstörfum hef ég ekki verið dugleg við bakstur, sérstaklega síðustu árin. Held þó að fjölskyldan geti tekið undir að eldamennskan og önnur heimilsstörf séu frekar yfir meðallagi svo þetta snýst frekar um áhugasvið en eitthvað annað.“

– Hvenær klárar þú að kaupa jólagjafirnar?

„Ég er alltaf mjög snemma með kaup á jólagjöfum en í ár var ég búin að kaupa þær allar óvenju snemma og pakka þeim fallega inn fyrstu vikuna í nóvember. Á Þorláksmessu má segja að það sé hefð hjá mér að bæta einni eða tveimur gjöfum við handa bóndanum og er það skemmtilegast þegar engin pressa er síðasta daginn fyrir jól.“

– Hvenær setjið þið upp jólatré?

„Uppsetning á jólatréinu hefur algjörlega verið mitt hlutverk og venjulega klára ég að setja upp jólatréið fyrir aðventuna. Í ár var það uppsett og skreytt þann 17. nóvember sem er nýtt met.“

– Eftirminnilegasta jólagjöfin?

„Ég hef fengið margar fallegar gjafir yfir árin en sú ánægjulegasta og þá sú eftirminnilegasta er örugglega happadrættisvinningurinn frá Lions á Þorláksmessu árið 1986. Unnum þá fyrsta vinning sem var Mazda 323. Við hjónin vorum þá nýgift og höfðum hafið búskap í bílskúrnum okkar á Bragavöllum. Þessi vinningur kom sér einstaklega vel þar sem við vorum bíllaus og þetta sama ár á fullu að byggja upp framtíðarheimilið og hótelið okkar.“

– Hvenær eru jólin komin fyrir þér?

„Jólin og hátíðarbragurinn hefst um leið ég tek af mér eldhússvuntuna og sest með fjölskyldunni við jólaborðið. Það er eins með jólin og annað í lífinu að því meira sem maður hefur fyrir hlutunum því meira nýtur maður þeirra.“

– Hefurðu sótt messu um jólahátíðirnar í gegnum tíðina?

„Hef nær alltaf sótt messu og finnst það í raun ómissandi þáttur af jólahátíðinni. Hátíðarmessa og svo jólaborðhald í beinu framhaldi skapar þá stemmningu sem jólin eiga að snúast um.“