Það eru ekki jól án Helgu Möller
Davíð Örn Óskarsson stendur í óða önn að færa Félagsmiðstöðina Fjörheima í nýtt húsnæði að Hafnargötu 88, þar sem verið er að gera allt fínt fyrir unglingana. Einnig er Davíð í heimildaöflun fyrir stuttu heimildamyndina sem hann er að vinna að og ætlar hann að sýna hana á næsta ári en hún er um körfuboltann í Keflavík.
Davíð er að ala upp litla stelpu, styðja unnustuna í próflestri og hafa gaman af lífinu og öllu því sem framundan er.
Fyrstu jólaminningarnar?
Ætli það sé ekki á jólaballi Frímúrara í Reykjavík að Skúlagötu, þar fannst mér ég vera að ganga inn í risastóra höll þar sem jólasveininn átti heima. Gleymi því aldrei. Svo einnig eftir Ghostbusters húsinu ásamt köllum sem ég fékk. Svo gleymi ég því aldrei þegar ég fékk fyrsta Stiga sleðan minn, tveir stórir pakkar undir trénu annar var eins og súla í laginu sem bróðir minn fékk og var það stórt bíla teppi og hitt var flotti Stiga sleðinn minn, sem eyðilagðist að mig minnir í grjótinu í skrúðgarðinum, þar fórum við óvenjulegar leiðir.
Jólahefðir hjá þér?
Þær eru nú orðnar þó nokkrar, á Þorláksmessu er vaninn að fara niðrí bæ og taka smá Hafnargötu rölt, svo er snattast heim til að gæða sér á smá jólamjöð og ostum. Aðfangadagur hefst með jólafótboltanum og heitum potti í Garðinum. Það höfum við félagarnir gert í nokkur ár. Möndlugrautur í hádeginu hjá tengdó. Kortadreifing eftir hádegi, hér áður fyrr var það hefð hjá okkur feðgunum að taka smá jólarúnt og dreifa út kortum til vina og vandamanna hér í bæ. Svo er það bara þetta reglulega að borða kl.18 og hlusta á prestinn í útvarpinu. Svo eru það nokkur jólaboð á milli jóla og nýárs þar á meðal hið árlega gamlársboð Gilla þar sem viðurkenningar eru veittar fyrir mann ársins í mörgum flokkum.
Ertu duglegur í eldhúsinu yfir hátíðarnar?
Nei ég get nú ekki sagt að ég sé duglegur, það er nú aðalega að koma öllum matnum á borðið og borða hann, en ég geri ráð fyrir því að þessi jól verði eitthvað öðruvísi þar sem að ég tel mig vera orðin besta brúnarann í fjölskyldunni, þannig að mér finnst það líklegt að mitt verk í eldhúsinu verði að brúna kartöflurnar þetta árið. Maður sparar ekki sykurinn.
Jólamyndin?
Ætli það sé ekki Christmas Vacation með honum Chevy Chase.
Jólatónlistin?
Allt þetta gamla góða. Það eru ekki jól án Helgu Möller.
Hvar verslarðu jólagjafirnar?
Ég hef nú reynt að versla allar jólagjafirnar hér í Keflvík, en stundum þarf maður að leita eitthvert annað. Annars sé ég lítið um að versla þær, ég tek þátt í mörgum jólagjöfum en kaupi þær fáar, en ég ákveð sumt.
Gefurðu mikið að jólagjöfum?
Já við gefum þó nokkuð af jólagjöfum.
Ertu vanafastur um jólin?
Já ég mundi segja það, ég er lítið fyrir að breyta og prófa eitthvað nýtt. Finnst jólin vera frábær eins og þau eru.
Besta jólagjöf sem þú hefur fengið?
Þær eru margar jólagjafirnar og er erfitt að velja eina sem er best, en sú jólagjöf sem hefur nýst mér best er snjóbrettið og allt sem því fylgir, galli, buxur, bindingar,skór og allur pakkinn. Ætli það séu ekki 7 ár síðan ég fékk þann pakka og er enn að nota hann.
Hvað langar þig í jólagjöf?
Það hefur tíðkast hjá mér að segja engum hvað mig langar í jólagjöf, því þá veit maður aldrei hvað maður fær og gerir þetta mjög erfitt fyrir þá sem vilja gefa mér eitthvað. En það sem mig langar í jólagjöf þetta árið er Iphone, Mac tölvu og mótórhjól. En það er ekki líklegt þannig að ég bíð bara spenntur.
Hvað er í matinn á aðfangadag?
Hamborgarhryggur,Waldorfsalat og og meðlæti, einhver góð súpa í forrétt held ég, eða þannig hefur það verið hjá mömmu og pabba undanfarin ár og efast ég um að það muni breytast eitthvað.