Það er mikilvægt að skapa góðar minningar
segir Bryndís Guðmundsdóttir, talmeinafræðingur
Bryndísi Guðmundsdóttur, talmeinafræðingi finnst gott að staldra við um áramót og hugsa hvað hún geti gert betur í lífi og starfi. Bryndís er ein af nokkrum Suðurnesjamönnum sem Víkurfréttir leituðu til nú um áramótin og lögðu fyrir þá spurningar. Hér koma svör Bryndísar en í blaði vikunnar má sjá fleiri viðtöl sem birtast á vefnum síðar.
Á þessu ári átti ég stórafmæli og naut tímamótanna bæði á persónulegum og faglegum nótum. Þá knúði sorgin dyra við lát ástvins þegar elskulegur mágur minn, Þorsteinn Ingi Sigfússon lést á árinu. Þorsteinn Ingi var kær og náinn vinur alla tíð og öllum í fjölskyldunni harmdauði. Ég sakna hans mjög en frá því augnabliki er við kynntumst stóð hann hjarta mínu nær. Þá var ég ég 17 ára að hefja samband við Árna bróður hans og saman upplifðum við fjölskyldurnar fullorðinsárin þar sem börnin fæðast eitt af öðru með góðum minningum og hamingjutíma.Gleði og sorg spiluðu því stórt hlutverk á þessu ári í lífi okkar fjölskyldunnar. Ég var svo sannarlega minnt á mikilvægi þess að skapa góðar minningar og njóta augnabliksins. Þar þarf ég stöðugt að bæta mig en árinu fylgdu líka góðar minningar sem ég er þakklát fyrir.
Ég á afmæli í mars og fagnaði þá með mínum nánustu vinum og ættingjum. Það var ýmislegt óvænt og eftirminnilegt sem fólkið mitt gerði til að gleðja mig sem minnti mig á hversu mikill fjársjóður og ríkidæmi er fólginn í því að eiga trausta og góða fjölskyldu og vini. Ég er mikið sumarbarn og hafði skipulagt ferð til Ítalíu í júní með stórfjölskyldunni í tilefni af afmælinu mínu. Það var hreint út sagt stórkostlegur tími sem við áttum saman, börnin mín, mágar og svilkonur okkar hjóna sem fögnuðu með okkur á Colletto býlinu við lítið fjallaþorp skammt frá Florence. Við áttum frábæra daga með matreiðslunámskeiði, útivist og skipulagðri göngu, okkar eigin snekkjuferð um Cinque Terre, vínsmökkun og fleira. Auðvitað var svo önnur afmælisveisla undir magnaðri kvöldsól Toscanafjalla þar sem tónlist og skemmtilegheit réðu ríkjum. Ferðin treysti svo sannarlega fjölskylduböndin og kærleikann okkar á milli.
Við árslok fluttum við hjónin okkur um set í Innri Njarðvík. Það er ærið verkefni sem verður í minnum haft þegar litið er til baka til þessa árs.
Á faglegum nótum fagnaði ég með því að gefa efnið sem ég hef þróað og gefið út síðustu áratugi, Lærum og leikum með hljóðin, til allra leikskólabarna á Íslandi i gegnum leikskólana. Með aðstoð fjölskyldunnar, Marel, IKEA, Lýsi og hjónanna Björgólfs Thors og Kristínar Ólafsdóttur tókst að gefa efnið í bóka- spila- stuðningsefni auk smáforrita, til allra barna á Íslandi. Auk okkar Árna aðstoðuðu vinir og vandamenn og Cargo flutningar í Reykjanesbæ, við dreifinguna til allra fræðsluskrifstofa á landinu. Það var gífurlega skemmtilegt verkefni á afmælisárinu en rannsóknir sýna að notkun efnisins gefur börnum verulegt forskot á læsi og styður við markmið samfélagsins um að gera betur á þessu sviði.
Fagnaðir þú ákveðnum áfanga eða byrjaðir þú á einhverju nýju 2019?
Auk stórafmælisins fór ég í mína fyrstu ferð í golfskóla með GS konum til Alicante í maí. Ég hef verið nokkuð lengi að komast af stað í golfi og þetta var alveg frábær ferð að öllu leyti. Góður félagsskapur og hvetjandi konur. Þarna var lagður grunnur, með frábærum vinkonum, að útivist og hreyfingu sem mig langar að sinna betur í framtíðinni.
Hvað fannst þér stóra fréttin á landsvísu?
Ég lít mér nær og vil einblína á það sem mér finnst skipta máli fyrir framtíð þessa lands. Samstarf ríkis og háskólasamfélagsins tók stórt skref í átt að máltækni fyrir íslenska tungu og það mun skila sér í læsi og menntun sem stuðlar að betri framtíðarmöguleikum þessa lands. Tungumálið endurspeglar menningu okkar og þjóðararf og barn sem hefur gott vald á íslensku yfirfærir þennan arf og ríkulegan orðaforða best með góðri lesfærni, þar sem öll snjalltæki tala og skilja íslensku.
Hvað fannst þér stóra fréttin í þínu nærumhverfi?
Bærinn okkar hefur breyst mikið síðustu ár hvað varðar umhverfi, menntun, menningu og möguleika íbúa til að eiga hamingjusamt og heilbrigt líf. Mér fannst jákvætt að sjá að framtíðarsýn þeirra sem stýrðu sveitarfélaginu síðustu 17 ár er að verða að veruleika hvað varðar afkomu bæjarsjóðs eins og lagt var upp með á þeim tíma. Fræjum var sáð í gríðarlega erfiðu árferði en ekki var gefist upp við að skapa umhverfi sem laðaði að nýja íbúa um leið og grunnur var lagður að nýjum atvinnutækifærum.
Þá verð ég að minnast á frábær afrek Más Gunnarssonar í tónlist og sundi á þessu ári. Már er einstakur ungur maður sem ég dáist mjög að.
Hvað borðaðir þú um áramótin?
Við erum sveigjanlegri með áramótamatinn en jólamatinn, svo það er aðeins breytilegt. Við höfum þó haft kalkún í aðalrétt núna síðustu árin. Höfum alltaf humarsúpu með heimagerðum brauðstöngum og eftirréttirnir eru heimagerður ís, dönsk eplakaka og frómas.
Eru einhverjar áramóta/nýárshefðir hjá þér?
Áramótin eru okkur fjölskyldunni helg og dýrmæt. Frá því að börnin okkar voru lítil höfum við haft þá hefð að hver og einn fjölskyldumeðlimur segir frá árinu sem er að líða, hvaða markmiðum var náð (eða ekki) og hvað stóð upp úr. Þá er sagt frá markmiðum næsta árs bæði persónulega - námslega og starfslega, hverja í fjölskyldunni viðkomandi þarf til að aðstoða sig við að ná markmiðunum, hvernig efla á andlegan og líkamlegan styrk o.s.frv. Orð eru til alls fyrst og í þröngum og nánum hópi fjölskyldunnar er gott að tjá sig um þessa hluti. Frá unga aldri læra börnin að setja sér markmið. Þau geta hljómað einföld hjá ungu barni en eru barninu vissulega mikilvæg. Smám saman þróast markmiðin og samtalið við aðra í fjölskyldunni. Einlægni og trúnaður hefur yfirhöndina. Systkinahópurinn verður þéttari og fjölskyldan tekur öll þátt í að draumar hvers og eins verði að veruleika. Ég hlakka mest til þessara stunda á gamlárskvöld.
Strengir þú áramótaheit?
Mér finnst alltaf gott að staldra við á þessum tímamótum og minna mig á hvað ég geti gert betur í lífi og leik. Mín áramótaheit eru því á þeim nótum.