„Það er líf eftir skuldir“
Umboðsmaður skuldara í Reykjanesbæ flyst til Reykjavíkur.
„Vegna niðurskurðar var embættinu gert að minnka umsvif og fækka starfsmönnum og embættum. Þörfin er þó sannarlega enn til staðar,“ segir Ásdís Leifsdóttir, ráðgjafi hjá Umboðsmanni skuldara í Reykjanesbæ. Embættið var stofnað í desember 2010 og verður eftir mánaðamótin flutt til Reykjavíkur. Ásdís vonast til þess að geta haldið áfram að sinna Suðurnesjabúum á skrifstofu sinni þar.
Erfitt að kveðja
Ásdís segir afar erfitt að kveðja það góða samstarfsfólk sem hefur fylgt henni um árin. Samstarfsfólkið efndi til kökuveislu og kaffisamsætis í húsnæði embættisins við Vatnsnesveg í morgun til að kveðja hana. „Þetta er einstakur hópur og ég er alveg á því að ef hann er þverskurðurinn af íbúum Suðurnesja, þá er svæðið í góðum málum,“ segir Ásdís og horfir blíðlega yfir hópinn.
Ásdís vonar að hún geti sinnt áfram Suðurnesjafólki á nýjum stað.
Er eins og Árni Johnsen
Sjálf hefur Ásdís tekið á móti þúsundum sem hafa átt í fjárhagslegum erfiðleikum frá því að embættið var opnað og hún segir ætíð hafa lagt áherslu á að skjólstæðingar hennar haldi reisn sinni. „Fólk kemur til mín beygt og bugað og takmark mitt er að það fari snarreist út aftur. Það er líf eftir skuldir.“ Hlýtt viðmót, jákvæðni og hógværð eru einkenni sem samferðafólk Ásdísar nefnir og þá er hún einnig liðtæk með gítarinn, eins og skraut á einni kökunni gefur til kynna. Ásdís gerir lítið úr því: „Ég er eins og Árni Johnsen, kemst ágætlega áfram með þrjú grip,“ segir hún og hlær.
Ásdís þykir liðtæk með gítarinn og var því gerð kaka með gítarkonuskrauti.
Sex þúsund umsóknir
Frá opnun útibús Umboðsmanns skuldara í Reykjanesbæ hafa verið rúmlega sexþúsund heimsóknir til útibúsins og rúmlega þúsund umsóknir vegna greiðsluerfiðleika hafa borist frá Suðurnesjum, en það eru tæplega 14% allra umsókna sem embættinu barst á tímabilinu. Auk þess að leggja niður útibú Umboðsmanns skuldara í Reykjanesbæ hefur tólf fastráðnum starfsmönnum í Reykjavík verið sagt upp störfum vegna hagræðingar. Hefur sú uppsögn verið tilkynnt til Vinnumálastofnunar sem hópuppsögn.
Samstarfsfólk kvaddi Ásdísi með veislu.
VF/Olga Björt