Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Það er kántrý í okkur öllum
Forspakkar „Bliksins“ stilltu sér upp fyrir ljósmyndara VF og auðvitað með kántrýstíl. VF-mynd/pket.
Laugardagur 13. ágúst 2016 kl. 07:00

Það er kántrý í okkur öllum

- Með blik í auga á kántrýnótum

Sveitasöngvar eru viðfangsefni hátíðartónleika Ljósanætur í Reykjanesbæ þetta árið undir yfirskriftinni Hvernig ertu í kántrýinu elskan? enda segir Kristján Jóhannsson einn af forsprökkum skipuleggjenda, „það er kántrý í okkur öllum“.

Tónleikarnir eru betur þekktir sem ,„Með blik í auga“ og hafa öðlast fastan sess í dagskrá Ljósanætur en að baki verkefninu standa þeir Kristján Jóhannsson, Guðbrandur Einarsson og Arnór B. Vilbergsson ásamt einvalaliði en segja má að um 50 manns alls komi að framkvæmd og undirbúningi hátíðartónleikanna.

Tónleikarnir eru orðnir ómissandi liður í dagskrá ljósanætur og tónleikagestir koma margir hverjir ár eftir ár enda vita þeir við hverju má búast að sögn Kristjáns. Að þessu sinni standa í stafni söngvararnir Björgvin Halldórsson, Stefanía Svavarsdóttir, Jóhanna Guðrún og Eyjólfur Kristjánsson auk þess sem Suðurnesjamærnar Sólborg og Sigríður Guðbrandsdætur sjá um bakraddir allt undir dyggri stjórn Arnórs B. Vilbergssonar og hljómsveit hans.

Það er ljóst að það verður tekið á því þegar helstu smellir kántrýsins verða fluttir, gamlir og nýjir, í bland við góðar sögur sem er einmitt að sögn Kristjáns eitt einkenna kántrýsins.

„Það sem einkennir kántrýið er treginn, sögurnar, trúin og flottir hljómar. Kántrýið á Íslandi er svolítið skemmtilegt því mörg alkuknn íslensk dægurlög eru afsprengi kántrýtónlistar. Meira að segja gömul lög sem margir halda að séu íslenskari en flatkökur eins og Lóan er komin og Fram í heiðanna ró eru gömul kántrýlög.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þeir félagar lofa góðri skemmtun að venju en að sögn Kristjáns stíga þeir nú aðeins út fyrir þægindarammann. „En það eru frábærir listamenn með okkur og lagavalið hefur heppnast ansi val að mínu mati. Við hlökkum svakalega til að framreiða þetta í okkar yndislegu áhorfendur.“

Miðasala er hafin og fer hún fram á midi.is. Frumsýning er miðvikudaginn 31. ágúst og tvær sýningar verða sunnudaginn 4. september kl. 16:00 og 20:00.