Það er hlutverk fyrir alla í kirkjukór
Organistinn Arnór Vilbergsson stýrir söngmálum í Keflavíkurkirkju. Hann fer mikinn og stýrir m.a. þremur kórum:
Það þótti mikill fengur að ná aftur í heimabæinn organistanum Arnóri Vilbergssyni. Hann hafði gert flott hluti á Akureyri og Keflvíkingar gáfu honum nokkur ár þar en sögðu svo: Komdu heim Arnór! Hann gerði það og þessi hressi, jákvæði og nú mikið skeggjaði sonur hjónanna í hinum vel þekkta pulsuvagni í Keflavík, er hinn tónelskandi kappi kirkjunnar. Til að byrja á léttu nótunum sem blaðamenn telja sig stundum kunna er Arnór spurður gamallar og sígildrar spurningar: Er starf organista í Keflavík fullt starf?
Þetta er býsna viðamikið en ég hef oft fengið þessa spurningu. Hér er ég mættur 8-9 á morgnana og er farinn um þrjú, hálf fjögur og geri ekkert allan þann tíma. (Hlær.) Nei djók. Ég sit hérna á skrifstofunni, svara í símann, tek og útfæri viðtöl og hitt og þetta sem þarf að gera. Við skipuleggjum messuhaldið, kóræfingar og eitt og annað sem þarf að gera hérna. Í þessu húsi er ég með þrjá kóra starfandi. Kirkjukórinn telur um 50 manns, Vox Felix er ungliðakór, svona samstarfsverkefni allra kirkna á Suðurnesjum - en allar sjö sóknirnar standa að honum. Ég skrifa allt út fyrir alla þessa kóra. Hann er í dægurlagatengdu efni. Við erum að reyna að finna lög sem henta kirkjuspileríi. Það er erfitt að fá þetta unga fólk til að syngja sálma. Ég þarf að útsetja það fyrir þau. Svo er það Eldey, kór eldri borgara. Fjöldinn þar er kominn yfir sextíu. Það er í mörg horn að líta þegar kemur að þessu starfi. Allt þetta utanumheld er töluvert og allt sem við þurfum að gera hér innanhúss. Við erum ekkert mörg að vinna hérna og stundum er ég kominn í að skipta um perur og þurrka af borðinu mínu á skrifstofunni.
En varðandi þennan sönghópa og hversu vel gengur að fá fólk til að taka þátt í þessu. Er Bítlabærinn að standa undir nafni?
Fólk er bara mjög iðið við að vilja koma. Það er oft talað um að það sé erfitt að fá stráka til þess að koma á æfingu. Á síðust Vox Felix æfingu komu sjö strákar, rétt yfir tvítugt. Þannig að það er mikið sönglíf hérna.
Og starf organistans? Messur, útfarir og kórstarf?
Jú, jú, ég spila við kistulagningar, útfarir og innan þessa ramma sem organisti þarf að sinna eru æfingar, 2-3 tímar á hverjum degi. Það er bara að sitja við hljófærið og spila. Svo skrifar maður nótur í tvo og hálfan tíma og skipuleggur annað hinn tímann. Spila á sunnudögum og svo taka útfarirnar stóran hluta úr degi. Kóræfingar eru alltaf á kvöldin. Þetta dreifist voða mikið og maður þarf að eiga mjög þolinmóðan maka. Takk Guðný mín!
En segðu mér meira af kórunum. Fjör framundan á hundrað ára afmæli?
Það eru hátíðarmessur fyrir krakka og fullorðna og aðalverkið sem við flytjum er Sanktus eftir Karl Jenkis. Það sem á hug minn allan eru hátíðartónleikar vegna afmælisins sem við erum að stefna að 29. mars í Hljómahöllinni. Þá ætla að sameinast karlakór, kvennakór og kirkjukór og við ætlum okkur að búa til strengjasveit sem spilar þar undir með dyggri aðstoð frá Tónlistarskólanum. Við ætlum að flytja Keflavíkurkantötru eftir Eirík Árna Sigtryggsson sem kenndi lengi í tónlistarskólanum. Þá ætlum við að flytja sálm sem Sigurður Sævarsson, okkar Keflvíkinga, sem hann skrifaði fyrir kirkjuna í tilefni 95 ára afmælisins. Sóknarpresturinn okkar, Skúli, á texta við það. Kórarnir flytja svo líka verk sjálfir. Meiningin er svo á Ljósanótt að vera með tvenna flotta tónleika.
Getur hver sem er komið í kór og annað? Þarf maður að kunna að syngja? Segðu okkur leyndarmálið á bak við góðan kórfélaga.
Við erum öll misjöfn. Sumir eru rosalega sterkir raddlega, aðrir í félagsmálum. Vissulega þarftu að halda lagi en flestöllum er hægt að hjálpa og ég trúi því að allir geti sungið. Það er allskonar fólk í kórnum okkar. Þar er fólk sem er búið með 8. stig í söng og fólk sem er að byrja að syngja með kór. Kraftar þessa fólks liggja oft meira í skipulagsvinnu og félagsvinnu á meðan 8. stigs fólkið er kannski að kenna. Það er hlutverk fyrir alla í kirkjukór.
Þetta fólk allt, sem er í sjálfboðavinnu, er það alveg til í að mæta við útfarir og messur og allt það sem þarf?
Við notum sem betur fer Internetið til þess að búa til hópa og það er alltaf frjáls mæting í messu. Það eru alltaf um 20 manns sem syngja þar. Ég hef yfirsýn yfir það og sé hverjir melda sig. Við útfarir erum við með raddformenn sem sjá um að boða í sína rödd. Ég óska kannski eftir 3 tenórum, 3 bössum o.s.frv. og þau kalla út það sem ég þarf. Þetta er mikið skipulag sem hefur tekist að setja á margar hendur. Þetta er ekki allt á minni könnu. Þetta er batterí og allt þarf að funkera svo að þetta gangi. Og það gengur allt mjög vel.
Þeir eru ófáir tónleikarnir sem Arnór hefur stýrt í Keflavíkurkirkju.