Það er erfitt að glíma við þetta einn
Tómas Orri Miller hefur í langan tíma glímt við andleg veikindi en hefur nú lært að lifa með þeim
Síðastliðið ár hefur margt gerst á samfélagsmiðlum hjá ungu fólki. Þar á meðal var umræðan #égerekkitabú sem fór fram á samskiptamiðlinum Twitter. Þar deildu ungmenni reynslu sinni af andlegum veikindum og ákveðin vitundarvakning fór af stað. Eftir hana var margt fólk sem áttaði sig betur á því að það stæði ekki eitt í þessu.
„Fullorðið fólk á aldur við foreldra mína er ekki vant því að tala opinskátt um andlegar raskanir eins og ungt fólk gerir mikið af í dag. Hluti af þeirri ástæðu eru samfélagsmiðlar. En á sama tíma getur mikil samfélagsmiðlanotkun líka ýtt undir þunglyndi og kvíða,“ segir Tómas Orri Miller, en hann hefur í langan tíma glímt við andleg veikindi og segist vera farinn að læra að lifa með þeim.
„Yfir mig kemur mikill einmanaleiki, vonleysi yfir framtíðinni, efi um mig sjálfan og sjálfshatur og oftar en ekki bitnar það á nánustu vinum og ættingjum. Ég á erfitt með að koma hlutum í verk sem lætur mér líða ennþá verr því þá finnst mér ég hafa eytt deginum í ekki neitt. Þetta er svolítill vítahringur. Maður gerir ekkert, fær samviskubit yfir því, fær kvíðakast yfir framtíðinni og finnst maður ekkert geta gert til að breyta því.“
Tómas telur að mörgum finnist erfitt að biðja um hjálp. „Það eru ekki margir sem vilja viðurkenna að þeir séu þunglyndir eða með kvíða. Strákum er svo sagt frá unga aldri að „hætta að gráta eins og lítil stelpa“ og að það sé ekki töff að sýna tilfinningar. En það er fullkomlega eðlilegt að sýna tilfinningar og ekkert til að skammast sín fyrir. Fólk dæmir það sem það skilur ekki. Það er ekki gott að byrgja tilfinningar inni því það gefur manni ekki tækifæri til að vinna úr þeim.“
Tómas hvetur ungmenni til að leita sér hjálpar sé þörf á því. „Talið við foreldra ykkar eða vini, eða við námsráðgjafa í skólanum ykkar. Einnig er Rauði Krossinn með hjálparsímann 1717 og spjall á www.1717.is sem er ókeypis. Þar er fullum trúnaði heitið og opið allan sólarhringinn. Það er erfitt að glíma við þetta einn en við þurfum öll hjálp með eitthvað. Ég myndi líka hiklaust mæla með því að hætta að drekka áfengi á meðan þú ert að glíma við þunglyndi eða kvíða. Áfengið gefur þér þá tilfinningu að allt sé í góðu lagi, þangað til þú vaknar daginn eftir og raunveruleikinn slær þig í andlitið.“