Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Það dýrmætasta sem við eigum eru börnin okkar
Kittý Guðmundsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
mánudaginn 22. ágúst 2022 kl. 10:30

Það dýrmætasta sem við eigum eru börnin okkar

Reykjanesbær auglýsir eftir fólki í stöðu dagforeldra en vöntun er á dagforeldrum í bænum. Dagforeldrar eru sjálfstæðir verktakar en þeir fá starfsleyfi í gegnum bæinn. Kittý Guðmundsdóttir, formaður Samtaka dagforeldra á Suðurnesjum, og eiginmaður hennar, Símon Jakobsson, eru með tíu börn í dagvistun. Þau segja krefjandi en jafnframt virkilega skemmtilegt. 

„Mér finnst þetta eitt dásamlegasta starf í heimi. Mér finnst rosaleg forréttindi að fá að vera með þessi litlu kríli hjá mér á daginn. Þetta er líka gríðarlega krefjandi starf, því þú þarft ekki bara að ala upp þitt eigið barn heldur ert þú að ala upp tíu börn í einu. Það kemur samt frá mínum innstu hjartarótum þegar ég segi hvað ég er þakklát því það er í raun ekki sjálfgefið að foreldrar treysti annarri manneskju fyrir barninu sínu, vegna þess að það dýrmætasta sem við eigum eru börnin okkar,“ segir Kittý.

Kittý er að hefja sitt tíunda ár sem dagforeldri en Símon slóst í för með henni eftir að Kittý nefndi það við hann í hálfgerðu gríni að hann gæti unnið með henni. „Símon kemur úr vöruhúsabransanum. Hann vann í bænum og var orðinn leiður á að keyra brautina og fór þá hægt og rólega að skoða í kringum sig og ég stakk upp á því í hálfgerðu gríni að hann ætti að gerast dagforeldri með mér. Svo tveimur dögum seinna spurði hann mig hvort mér væri alvara og hugsaði með mér: „Af hverju ekki?“ Svo ég svara játandi. Hann ákvað þá að taka sér pásu frá vöruhúsabransanum í ár og vera í þessu. Við prófuðum það og hann er að byrja sitt fjórða ár núna og líkar rosalega vel við. Þetta var alveg ótrúlega fyndið hvernig þetta gerðist,“ segir Kittý. Hún segir það muna miklu að vera með félaga í sér í starfi sem þessu. „Ég hef bæði unnið ein í mörg ár og svo með félaga. Ég get ekki talað fyrir hönd allra en fyrir mitt leyti finnst mér þetta mun skemmtilegra, auðveldara og þægilega. Þá er maður líka ekki bara að tala í „gaga gúgú máli“ allan daginn, maður fær þá að minnsta kosti einhver samskipti við fullorðinn einstakling,“ segir hún. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Kittý er formaður Samtaka dagforeldra á Suðurnesjum

Vöntun hefur verið á dagforeldrum á svæðinu og Kittý segist finna fyrir því sem formaður Samtaka dagforeldra á Suðurnesjum. „Það er mikið af foreldrum sem hringja í mig til þess að athuga hvort ég viti um laus pláss. Ég fæ einnig eitthvað af símtölum frá áhyggjufullum foreldrum sem vita ekki hvað þeir eiga að gera í þeim tilfellum sem það er ekki pláss. Ég veit náttúrlega oftast hvar þau pláss eru og ég fæ oft að vita ef það losna pláss hjá einhverjum dagforeldrum. Ég finn því kannski meira fyrir þessu en aðrir,“ segir Kittý. Í átta ár af þeim tíu árum sem hún hefur verið í starfinu hefur hún verið formaður félagsins og segir hún það vera erfiðara nú en áður að finna pláss fyrir alla. „Langflest árin höfum við náð að brúa nánast alla, þá hafa nánast allir komist inn til okkar á haustin. Það eru náttúrulega alltaf einhverjir sem komast ekki inn, það hefur nú samt oftast reddast. Núna í ár er árgangurinn einstaklega stór og því miður höfum við ekki náð að brúa þetta. Ég vildi óska þess að ég gæti boðið öllum að koma bara til mín en það eru takmörk á því hversu mörg hver og einn má sjá um,“ segir hún.

Stjórn Samtaka dagforeldra á Suðurnesjum hefur verið í góðu samstarfi við Reykjanesbæ og segir Kittý það samstarf lofa góðu. „Við í stjórninni vorum einmitt að ljúka samning við Reykjanesbæ þar sem Reykjanesbær mun greiða dagforeldranámskeiðið að fullu. Hingað til hefur bærinn borgað helminginn af upphæðinni en nú er það niðurgreitt að fullu. Auk þess fá nýir dagforeldrar aðstöðu styrk upp á hundrað þúsund krónur til þess að byrja starfsemina sína sem er alveg rosalega mikil hjálp. Síðan erum við að fara að fá leikfangastyrki á þriggja ára fresti upp á hundrað þúsund krónur sem er náttúrlega bara geggjuð búbót fyrir okkur dagforeldrana til að hafa okkar starfsemi sem besta. Við erum með þannig metnað að við viljum vera flott, við viljum að foreldrar líti á starfið okkar og hugsi að það sé æðislegt. Þegar maður er með þennan metnað að gera starfið fyrsta flokks, þá kostar það sitt. Mér finnst því æðislegt að Reykjanesbær sé til í að taka þátt í þessu með okkur, það er ómetanlegt. “ segir Kittý. 

Aðspurð hvaða skilaboð Kittý hefur til þeirra sem eru að spá í að hefja störf sem dagforeldri segir hún: „Láttu vaða. Þú þarft að elska þessi litlu kríli og vera þolinmóð manneskja en það sakar aldrei um að láta vaða. Ég segi oft: „Prófaðu þetta í ár, þú tapar í rauninni engu á því. Því flestir sem prófa þetta í ár enda svo í þessu til fleiri ára og alveg upp í þrjátíu ár. Okkur vantar dagforeldra og það er ekki hlaupið að því fyrir alla að gerast dagforeldri. Það þarf að vera með fínt húsnæði og svoleiðis. Fólki dettur heldur ekki alltaf í hug að gerast dagforeldri en ég mæli með þessu starfi, alveg hiklaust.“ 

Allar upplýsingar um störf dagforeldra í Reykjanesbæ má finna á heimasíðu bæjarins, www.reykjanesbaer.is.