Þá snerist lífið um fiskinn
Stebbi Run – annasamir dagar og ögurstundir er heiti nýrrar bókar sem Óskar Þór Karlsson hefur ritað um æviminningar Stefáns Runólfssonar frá Vestmannaeyjum. Stebbi Run var á ferð á Nesvöllum fyrir siðustu helgi þar sem hann las valda kafla úr bókinni en hann dvaldi m.a. í Keflavík á árunum 1962 - 1964 og kynntist helstu athafnamönnum þess tíma þegar lífið snerist um fiskveiðar og vinnslu.
Í bókinni er dreginn upp lifandi lýsing á mannlífinu í Vestmannaeyjum á uppvaxtarárum Stefáns. Hann helgaði íslenskum sjávarútvegi krafta sína og var ungur að árum orðinn yfirverkstjóri í Hraðfrystustöðinni. Þá lýsir Stefán m.a. þeirri lífsreynslu sem hann upplifði í eldgosinu í Eyjum. Stefán er hafsjór af fróðleik um menn og málefni og sögumaður góður.
„Ég var hér í Keflvík í tvö ár og vann í Litlu milljón sem kölluð var. Hér voru bæði Stóra og Litla milljón. Ég var heppinn að fá að búa hjá Fríðu á Vatnsnesi en ég leigði hjá henni. Ég á mjög góðar minningar frá þessum árum í Keflavík. Hér voru margir eftiminnilegir menn sem ég tel upp í bókinni, þessar höfðingar eins og Elías Þorsteinsson, Margeir Jónsson, Huxley Ólafsson, Hreggviður Bergman, Óli Sól og fleiri stórmenni. Ég kynntist líka Ásgrími Pálssyni vel en hann var þá framkvæmdastjóri Jökuls og Ásmundi Friðrikssyni hjá Atlantor en hann er afi nafna síns sem starfar hjá Reykjanesbæ. Hér var mikið líf og fjör á þessum árum, fjöldi frystihúsa og full höfn af bátum. Maður man eftir vel Hallgrími Rosa með gjallarhornið á bryggjunni. Þá snerist lífið um fiskinn,“ segir Stefán.
VFmynd/elg - Stebbi Run ásamt Ásmundi Friðrikssyni og Óla Björns á sagnasíðdegi á Nesvöllum þar sem Stebbi las upp úr nýju bókinni.