Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Þá köstuðu þeir tómum bjórdósum í okkur
  • Þá köstuðu þeir tómum bjórdósum í okkur
Laugardagur 2. apríl 2016 kl. 10:36

Þá köstuðu þeir tómum bjórdósum í okkur

– Jóhann Helgason segir frá Keflavík æskunnar og tónlistinni

Jóhann Helgason hefur um árabil verið í fremstu röð íslenskra tónlistarmanna, sem einn virtasti lagahöfundur og flytjandi landsins. Mörg laga hans hafa notið hylli landsmanna og sum hver fest rætur í þjóðarsálinni, eins og lagið söknuður sem hann samdi við texta Vilhjálms Vilhjálmssonar frá Merkinesi í Höfnum.

Fimmtudaginn 7. apríl verða haldnir tónleikar til heiðurs Jóhanni í Hljómahöll en þeir eru þeir síðustu í tónleikaröðinni Söngvaskáld á Suðurnesjum sem vakið hefur athygli en markmið hennar er að kynna ríkan tónlistararf Suðurnesja. Þar verður farið yfir tónlistarferil Jóhanns í máli, myndbrotum og tónlist en flytjendur eru Elmar Þór Hauksson, Arnór B. Vilbergsson og Dagný Gísladóttir.
Jóhann ólst upp í gamla bænum í Keflavík, nánar tiltekið við Íshússtíginn, en hann var langyngstur systkina sinna og hafði því helst félagsskap af kettinum á heimilinu og hlustaði þess á milli á messur í útvarpinu eða það nýjasta í Kananum.



Rak beljurnar heim með Helgu Geirs

„Það var frábært að vera í Keflavík sem krakki. Þar var allt við hendina hvort sem það var bryggjan til þess að veiða, slippurinn með sín ævintýri, fótbolti á Túnbergi eða hatrammir bardagar milli hverfa. Við strákarnir sáum sjálfir um fótboltavöllinn sem var rammaður inn af Kirkjuvegi, Vesturgötu og Vesturbraut. Við fengum salt úr frystihúsinu til þess að gera línuna og svo saumaði mamma Sævars Jóhannssonar búninga á liðið en pabbi hans var járnsmiður í slippnum.“
Jóhann var í hópi krakka sem rak beljurnar heim með Helgu Geirs frá Túnbergi eftir Kirkjuveginum og fór í þrjú bíó og á stúkufundi hjá Framnessystrum Guðlaugu og Jónu sem þá voru með stærstu barnastúku landsins. Einnig var vinsælt var að vera í bílaleik upp á heiði. „Þá vorum við fyrir ofan kaupfélagið við Hringbraut en sonur Kristínar í Kristínarbúð smíðaði bíla fyrir stráka, með fjöðrum og allt. Við undum okkur við þetta lengi hópur af strákum og best var að númeraplöturnar voru eins og alvöru, teknar af fataskápum hjá ameríska hernum“, segir Jóhann og hlær.



Notaði gítarinn til að stríða kettinum

Móðir Jóhanns, Inger Marie Nielsen, hlustaði oft á útvarpsmessuna með steikinni á sunnudögum og Jóhann hlustaði því á sálma og annað sem í boði var í útvarpinu, þótt ekki væri það mikið. Þá var gott að geta stillt á Kanaútvarpið en þar kynntist Jóhann fjölbreyttri popp- og rokktónlist.

„Þegar ég kom heim frá Ameríku 1964, eftir sumardvöl hjá systrum mínum var Bítlaæðið skollið á fyrir alvöru og vinir mínir búnir að stofna hljómsveit. Þá var mér var gefin gítarbók. Systir mín hafði verið í skátunum og skildi eftir gítar á veggnum. Ég hafði nú aðallega notað hann til þess að stríða kettinum með því að strjúka eftir strengjunum og líkja eftir urri og breimi en nú var hann nýttur til þess að læra gripin. Hljómsveitin tróð upp í æskulýðsheimilinu en þeir kunnu ekki neitt og fór framkoman fyrir ofan garð og neðan að sögn Jóhanns sem glottir þegar hann rifjar þetta upp.

Seinna kom til hljómsveitin Rofar en yngsti meðlimurinn þurfti að fá leyfi hjá barnavernd til þess að koma fram á tónleikum í Krossinum því hann var svo ungur. Þeir félagar höfðu oft bara æft 2-3 lög og því fór spileríið að þynnast út eftir því sem á leið. „Þeir voru fljótir að henda í okkur tómum bjórdósum amerísku hermennirnir á klúbbunum þegar það gerðist, höfðu ekki þolinmæði fyrir þessu,“ segir Jóhann og glottir.



Hringdu lögin á milli

Rofar breyttust síðar í Nesmenn en bandið hætti 1969 þegar liðsmenn tvístruðust um allar trissur til vinnu, Magnús fór á sjóinn og Jóhann til Bolungavíkur. Eftir þá dvöl fóru þeir að hittast og semja tónlist og úr varð hið þekkta tvíeyki.

„Við vorum ekki alveg búnir að sleppa þessum tónlistaráhuga. Ég hafði verið að fikta við að semja frá 1967 en ekki alvarlega og þarna tökum við þetta fastari tökum. Við fengum Barry sem var skiptinemi í Njarðvík til þess að semja nokkra texta á ensku og svo vorum við Maggi að hringja í hvorn annan en hann bjó í Njarðvík. Ég spilaði og söng fyrir hann nýsamið lag í símann og hann hringdi stuttu síðar með mótframlag og öfugt. Þannig hvöttum við hvorn annan í jákvæðri samkeppni. Það gekk mjög vel.“
Það gekk svo vel að þeir félagar fengu plötusamning í ársbyrjun 1972. Þá sögðu þeir upp vinnunni og fóru á fullt í verkefnið sem mörgum þótti óðs manns æði.



Magnús og Jóhann slá í gegn - tilraun til heimsfrægðar

„Við tókum rútu í bæinn og útgefandinn sótti okkur á umferðarmiðstöðina. Platan var tekin upp á 3-4 eftirmiðdögum og kom út um vorið 1972.  Hún sló strax í gegnum og við höfðum ótrúlega mikið að gera.“

Jóhann fékk þá hugmynd og hann sagði við Magnús „Ég ætla að semja lag og fá samning úti.“ Það er skemmst frá því að segja að sú varð raunin. Til varð lagið Yakketti Yak, Smacketty Smack síðsumars 1972, þeir félagar fóru til London og fengu samning. Breski útgefandinn Orange nefndi þá Change og gerð var tilraun til heimsfrægðar. Hún lét þó bíða eftir sér og við tók fjölbreyttur sólóferill Jóhanns þar til að hann samþykkti að taka þátt í verkefni Gunnars Þórðarsonar og skipaði dúettinn Þú og ég ásamt Helgu Möller. „Ég vissi samt ekkert hvað diskó var”, segir Jóhann en segja má að dúettinn sé holdgervingur diskóæðisins á Íslandi.

Mörg laga Jóhanns eiga sér fyrirmyndir úr bæjarlífinu í Keflavík eða tengjast ákveðnum stöðum. Má þar nefna lagið um grásleppu, hangikjöts og sælgætiskallinn, „Mamma gefðu mér grásleppu“ sem varð til 1970 þegar Jóhann vann sem aðstoðarmaður bakara á Keflavíkurflugvelli. Á ensku hét það upprunalega „I was working in a bakery shop“ en það varð „það var einu sinni grásleppukarl“. Grásleppukarlinn var Helgi Jensson. „Hann var alltaf með riffil á trillunni sinni og um leið og hann kom á bryggjuna flugu fuglarnir í burtu“, segir Jóhann og hlær. „Hangikjötskarlinn var Ingimundur í Ingimundarbúð, vel stæður kaupmaður og sælgætiskarlinn er um hana Kristínu í Kristínarbúð. Hún var rétt hjá mér og þar keypti maður allt frá því að maður man eftir sér. Þar fékk maður Pepsí en í barnæsku notuðum við oft næsta nagla og grjót til þess að gera gat á tappann. Hún var ekki með kæli svo maður vandist á það að drekka heitt gos“, segir Jóhann og hlær.



En hvernig leggjast tónleikarnir í Jóhann og verkefnið Söngvaskáld á Suðurnesjum?

„Tónleikarnir leggjast vel í mig og ég vona að sem flestir sjái sér fært að mæta. Söngvaskáld á Suðurnesjum er virkilega flott framtak og einkar fagmannlega að verki staðið hjá þeim Dagnýju, Elmari Þór og Arnóri.

Mér sýnist þessi snjalla hugmynd ætli að fá þá verðskulduðu athygli og aðsókn sem hún á skilið.
Nái tónleikaröðin flugi í Hljómahöll gæti hún hæglega, miðað við fjölda söngvaskálda af svæðinu, orðið að árlegum viðburði sem myndi tvímælalaust styrkja ímynd og auka hróður samfélagsins á Suðurnesjum með tengingu við Rokksafn Íslands.“

Tónleikarnir verða haldnir í Bergi í Hljómahöll fimmtudaginn 7. apríl kl. 20:00 og er miðaverð kr. 3.200. Miðasala er á hljomaholl.is og í afgreiðslu Hljómahallar.




 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024