Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Þá er ég bara ég
Andrea mætir viðskiptavinum alltaf með brosi í Tölvulistanum. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 4. september 2023 kl. 08:22

Þá er ég bara ég

– eins og ég ætti að vera

Andrea Þórmarsdóttir er 22 ára transkona sem ólst upp sem Andri, ósköp venjulegur strákur í Garðinum. Andrea kom út sem kynsegin fyrir nokkrum árum en komst svo að því að hún væri trans og bíður spennt eftir að hefja kynleiðréttingarferli. Víkurfréttir ræddu á hispurslausum nótum við Andreu til að fræðast um ferlið sem liggur að baki því að breytast úr strák í stelpu.

Dæmigerður strákur

Ef við byrjum á byrjuninni. Þú fæðist sem strákur og elst upp sem strákur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Nákvæmlega, það var ekkert sem gaf til kynna að ég væri stelpuleg þegar ég var yngri. Ég var enginn dúkkustrákur heldur lék mér með Lego og var í byssuleikjum, svona dæmigerður strákur.

Árið 2017 kom ég út sem kynsegin [non-binary; hugtak sem nær yfir einstaklinga sem skilgreina sig sem ekki eingöngu karlkyns eða kvenkyns. Heimild: Heilsuvera.is] og var þannig í nokkur ár. Kannski er ég hvorugt, það skipti mig ekki máli.“

Andrea segist hafa litið á sjálfa sig sem kynsegin í nokkur ár og breyttist lítið við það, hélt áfram að klæðast sömu fötunum og vera eins og áður. Hafði ekki þörf fyrir neina sérstaka skilgreiningu og  segist ekki taka því illa sama hvaða fornafni fólk kýs að kalla hana. „Ef þú segir hún, hán eða „whatever“ þá skiptir það mig ekki máli – það var alltaf notað hann af því að ég breyttist ekkert í útliti.

Ég kom út sem kynsegin sautján ára gömul en þremur árum síðar fór ég í smá naflaskoðun. Ég fór að velta fyrir mér hvort ég væri kannski trans og byrjaði að prófa mig áfram með því að breyta fatastílnum og hvernig ég er – hvernig ég sýnist eða hvernig fólk lítur á mig. Þá var ég bara: Ó, damn! Ókei, þetta er ég.“

Andri var ósköp venjulegur strákur í Garðinum.

Þér hefur þá ekkert liðið illa sem strákur, upplifað þig sem fanga í eigin líkama eða eitthvað í þá áttina?

„Nei, í rauninni ekki. Ég breytti t.d. nafninu mínu ekkert mikið, Andri yfir í Andrea,“ segir hún og hlær. „Ég lít ekkert á fyrra nafnið sem eitthvað tabú, margir þola ekki gamla nafnið sitt en þetta er bara einhver sem ég var. Sumir taka upp ný og allt öðruvísi nöfn. Ég fór yfir öll skráð kvennanöfn og endaði á nánast sama nafni og ég var með fyrir.“

Hvað með unglingsárin og svona, áttirðu kærustur?

„Já og ég myndi eiginlega segja að ég sé lesbísk. Ekki það að ég hafi neitt á móti karlmönnum, ég get alveg séð mig með karlmanni en myndi segja að það væri svona níutíu prósent gegn tíu prósent. Ég hef alltaf verið með konum og sé mig frekar með þeim en körlum,“ segir Andrea.

Lífsstílsbreyting sem er ekki hægt að snúa við

Þrátt fyrir að ákvörðunin um að taka skrefið og fara í kynleiðréttingu hafi verið ansi stór segist Andrea í raun ekki hafa verið lengi að ákveða sig.

„Það var af því að ég vissi að ég væri með gott stuðningsnet í kringum mig og mér fannst ekkert hræðilegt við að koma svona út. Ég var kannski smá hrædd um viðbrögð ömmu og afa en svo voru þau alveg góð með þetta.“

Andrea tók sér nokkra mánuði til að velta hlutunum fyrir sér áður en hún tók ákvörðun um að hefja kynleiðréttingarferlið og naut þar leiðsagnar transteymis Landspítalans. Hún fór í þrjú viðtöl en segir að niðurstaðan hafi í raun allan tímann legið ljóst fyrir.

Transteymi Landspítalans fer yfir allt ferlið með umsækjendum í þremur viðtölum og líður hálfur mánuður til mánuður á milli tíma. Fyrsti tíminn fer í að kynna ferlið fyrir viðkomandi, annar tíminn segir hverjar breytingarnar verða og farið er yfir væntingar umsækjanda. Þriðji tíminn er í raun bara til að staðfesta að þetta sé virkilega það sem umsækjandi vill.

„Sá tími tók mig fimm til tíu mínútur. Svona er þetta, ég er bara svona. Ég tók samt alveg ár í það að ákveða hvort ég vildi fara í aðgerð eða ekki – það er stærsti þátturinn í þessu öllu saman, það er aðgerð. Þú ert að breyta líkamanum og það er óafturkræft því það þarf að breyta upphaflegu kynfærunum og þá er ekki hægt að snúa til baka. Ég er ennþá að bíða eftir að byrja í hormónameðferð en það eru níu mánuðir síðan ég sótti um.“

Þetta er þá kannski miklu frekar lífsstílsbreyting heldur en líkamleg breyting.

„Algerlega.“

Andrea segir að það séu um níu til tólf mánaða bið eftir hormónameðferð en þriggja ára bið er eftir að komast í aðgerð. Það sé þó styttri bið en áður því núna eru allar aðgerðirnar gerðar í Svíþjóð og þegar röðin kemur að henni flýgur hún út til Svíþjóðar og verður þar í þrjár vikur.

Manni heyrist á öllu að fólk hafi tekið þessu vel, allsstaðar.

„Mjög vel. Fjölskyldan, pabba míns megin, fékk smá svona aðlögun af því að frændi minn kom út sem trans líka. Við fæddumst á sama ári, það er mánuður og ellefu dagar á milli okkar, og vorum alltaf mjög náin en svo kom hún út sem strákur þannig að þau fengu smá æfingu svona þremur árum áður en ég kom út.“

Andrea vinnur sem sölumaður í Tölvulistanum í Reykjanesbæ og hefur gert frá árinu 2017. Hún kom út eftir að hún hóf störf þar og þrátt fyrir allt tal um fordóma í garð hinsegin fólks í samfélaginu okkar ber það kannski vott um jákvæða hugarfarsbreytingu að það var aldrei neitt vandamál innan fyrirtækisins.

„Já, það tóku allir vel í þetta og ég veit að ég er ekki eina transmanneskjan í fyrirtækinu. Um leið og ég kom út og breytti nafninu mínu bað ég um að einhverju öðru yrði breytt, ég man bara ekki nákvæmlega hverju,“ segir Andrea hugsandi. „Þau spurðu bara hvort við ættum ekki að breyta öllu; þessu, þessu, þessu og þessu ... og ég sagði bara; ókei, kúl. Þannig að hugmyndin var í raun og veru þeirra – að breyta öllu.“

Það fer vel á með Andreu og samstarfsfólki hennar í Tölvulistanum.

Það er gaman að heyra að þú eigir gott bakland og hafir ekki upplifað fordóma í þinn garð.

„Já, ég get ekki sagt að ég hafi upplifað fordóma. Af og til eitthvað smávegis á netinu,“ segir hún og hlær að því. „Mér er sama. Það er alls ekki mikið miðað við það sem ég hef heyrt, t.d. af fólki í öðrum löndum og hvað það er að ganga í gegnum þar. Enda sýna allir þeir listar sem ég hef séð yfir vinalegustu hinsegin löndin í heiminum að Ísland er á toppnum. Ísland er númer eitt á öllum listum.“

Hvert er svo framhaldið? Þú gengur í gegnum leiðréttingarferlið og hvað tekur svo við?

„Þá er ég bara ég – eins og ég ætti að vera í raun og veru. Margt transfólk, alls ekki allt transfólk, gengur í gegnum það sem er kallað kynami [e. gender dysphoria]. Þú lítur á líkamann þinn og segir: „Þetta er ekki ég. Þessi líkami passar ekki við andlitið á mér.“ Það getur verið mjög slæmt fyrir fólk að lenda í því en kynama getur fylgt þunglyndi, kvíði og fleira. Hjá mörgum getur þetta varað í mörg ár, þeir eru jafnvel búnir að fara í kynleiðréttingu og hormónameðferð en upplifa það samt. Ef við tökum dæmi um transmenn; það fylltist kannski ekki út í líkamann hjá þeim eins og þeir vildu og þeir voru ennþá með mjaðmir og mitti. Þá líta þeir ekki á þetta sem hluta af sínum líkama og finnst þeir ennþá konulegir.

Ég upplifði þetta alveg til að byrja með, þ.e.a.s. fyrst eftir að ég kom út, af því ég var ekki viss hvernig ég átti að vera, hvernig ég átti að klæða mig til að passa betur við mig eins og ég leit á mig. Það tímabil varði í svona fjóra mánuði en svo tók ég sjálfa mig í sátt því ég vissi að þetta myndi gerast, það tæki bara sinn tíma.“

Andrea mun þurfa á hormónameðferð að halda alla tíð eftir kynleiðréttingarferlið þar sem líkaminn var upphaflega ekki gerður í þeirri mynd sem hann verður þá kominn í. Þá á hún eftir að finna fyrir skapgerðarbreytingum en Andrea segir að skapgerð karla breytist frá degi til dags á meðan konur ganga í gegnum mánaðarlegar breytingar í takt við tíðahringinn.

Fara transkonur þá á blæðingar?

„Já og nei, transkonur sem fara á hormóna fara í raun ekki á blæðingar en geta upplifað krampana og skapsveiflurnar sem ættu að koma með þeim, en ekkert blóð. Þær fá þetta skemmtilega; sársaukann og krampana – ekki hitt,“ segir Andrea hlæjandi. „Það getur þó gerst að þær fái einhverjar blæðingar, ég vona að ég sleppi við það en ef ekki þá er það bara hluti af pakkanum.“

Hrósar þeim sem spyrja

Nú hefur þú afgreitt mig hérna í Tölvulistanum frá því að þú varst strákur en ég beit næstum úr mér tunguna þegar þú varst að aðstoða mig fyrir stuttu og ég sagði: „Takk vinur!“ Þá var ég ekki viss hvað þú værir eða vildir láta kalla þig.

„En svo spurðir þú mig út í það. Það eru mjög fáir sem spyrja og ég hrósa alltaf fólki þegar það spyr mig. „Já, ég er hún. Takk fyrir að spyrja.“ Þegar það er augljóst að fólk er að breytast er gott að spyrja frekar en að misskilja fólk. Ef fólk misskilur mig þá angrar það mig ekki neitt, skiptir mig engu máli – en aðrir geta verið viðkvæmir fyrir því.

Af því að þetta angrar mig ekki neitt þá er mér alveg sama – en ef það spyr þá er það alveg geðveikt, haltu áfram að spyrja,“ segir Andrea og bætir við að það sé af hinu góða að kynna sér það sem fólk skilur ekki. Fordómar byggjast á fáfræði og vanþekkingu og sá sem spyr ekki lærir ekki neitt.

Tekur þú þátt í Pride-göngunni?

„Ég ætlaði að gera það núna en komst ekki. Þú trúi því kannski ekki en ég hef aldrei farið í gönguna. Ég er alltaf á leiðinni en einhverra hluta vegna er alltaf brjálað að gera hjá mér í vinnu í ágúst, þá eru útsölur og svona – en ég ætla að fara á næsta ári og er búin að tilkynna vinnufélögunum það,“ sagði transkonan Andrea Þórmarsdóttir að lokum.

Andri og litla systir saman í útilegu.
Fjölskyldan studdi Andreu sem er þakklát fyrir að eiga það góða bakland.