Textílnemar styrktu Björgunarsveitina Suðurnes um 75.000 krónur
Á fata- og textílbraut í Fjölbrautaskóla Suðurnesja er endurvinnsluáfangi þar sem unnið er með endurunnið efni. Liður í þessum áfanga er að gera eitt verkefni til góðs. Að þessu sinni voru fimm nemendur sem saumuðu fjölnota taupoka.
Allur ágóði af sölu pokanna fór til Björgunarsveitarinnar Suðurnes. Bjarni Rúnar Rafnsson, formaður sveitarinnar, mætti ásamt Hönnu Vilhjálmsdóttur til þess að taka á móti styrknum upp á 75.000 kr.
„Okkar bestu þakkir til allra sem styrktu verkefnið,“ segir Katrín Sigurðardóttir kennari í tilkynningu frá skólanum.
Þetta er í þriðja sinn sem þessi áfangi er kenndur en áður hafa Fjölskylduhjálp í Reykjanesbæ og Krabbameinsfélag Suðurnesja fengið styrk frá nemendum FS.