Mannlíf

Tengdasonur Keflavíkur alltaf að lenda í einhverjum fjandanum
Pétur Jóhann Sigfússon.
Þriðjudagur 18. nóvember 2014 kl. 09:14

Tengdasonur Keflavíkur alltaf að lenda í einhverjum fjandanum

„Núna er ég á mínum forsendum á sviði í 90 mínútur að tala í míkrafón um daginn og veginn og er mjög óheflaður. Ég er ekkert yfirmáta grófur en þó ekki að passa mig eins og þarf stundum að gera þegar maður er á annarra vegum. Það er ekkert skafið af því,“ segir Pétur Jóhann Sigfússon, uppistandari í samtali við Víkurfréttir, en hann mun verða með uppistandið Pétur Jóhann óheflaður í Hljómahöll á föstudagskvöld.

Á eigin forsendum
Pétur Jóhann er flestum kunnur sem bæði leikari og uppistandari og hefur víða skemmt Suðurnesjamönnum á þorrablótum, árshátíðum eða uppskeruhátíðum íþróttafélaga. Í þetta sinn verður Pétur Jóhann á eigin forsendum og segir hann það mikinn kost. „Ég get verið óbeislaður og ekki í neinum fjötrum. Þetta er sama prógrammið og ég hef verið að fara með á landsvísu en flétta kannski Suðurnesjunum eitthvað inn í það. Ég geri það yfirleitt á hverjum stað.“ Hann segir móttökur hafa verið góðar og gengið vel, enda er maðurinn þaulvanur og búinn að vera í uppistandi í mörg ár.

Spotta það kómíska í þessu daglega
Spurður um hvort auðvelt sé erfitt að finna húmorinn í lífinu í kringum sig segir hann það yfirleitt vera svo. „Það getur stundum verið mál en maður þarf að vera dálítið í því að reyna að sjá það alls staðar. Og líka geta komið því frá sér því sem maður lendir í sjálfur. Ég er alltaf að lenda í einhverjum fjandanum og segi frá því. Spotta það kómíska í því sem maður er að kljást við.“ Hann segir virka vel að velta upp spurningum um það sem við tökumst á við á hverjum degi en erum ekkert sérstaklega að spá í. Reyna að sjá það fáránlega og skrýtna við það sem við erum að gera á hverjum degi. Hann vonast til þess að einhverjir eigi eftir að spegla sjálfa sig í þessum sögum.

Enginn smá titill
Sambýliskona Péturs Jóhanns, Sigrún Halldórsdóttir, er Keflvíkingur og blaðamaður spyr Pétur Jóhann hvernig honum finnist að vera tengdasonur Keflavíkur. „Þetta er enginn smá titill. Ég veit ekki hvort ekki hvort ég ræð við hann,“ segir hann og skellihlær. „Ég hlakka allavega mikið til að koma. Ég er að vinna við það sem mér finnst skemmtilegt og fer örlítið inn á það í uppistandinu, lífið í leik og starfi. Hvað við veljum okkur og hvað það eru mikil forréttindi að fá að vinna við það sem manni finnst skemmtilegt,“ segir Pétur Jóhann að endingu.

Nánari upplýsingar um viðburðinn hér.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024