Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Telur mjög litlar líkur á eldgosi í Grindavík
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði og bergfræði við Háskóla Íslands.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 2. ágúst 2024 kl. 06:30

Telur mjög litlar líkur á eldgosi í Grindavík

Sérfræðingar Veðurstofunnar þurfa að skoða gögnin frá öllum hliðum

„Ég tel engan kvikugang ná undir Grindavík og þ.a.l. eru nánast engar líkur á eldgosi inni í Grindavík að mínu mati,“ segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði og bergfræði við Háskóla Íslands. Þorvaldur hefur verið ansi áberandi í fjölmiðlum síðan jarðhræringarnar í Grindavík hófust og um tíma var hann í rýnihóp Veðurstofu Íslands. Hann setur varnagla við fréttaflutninginn, um að líkur séu á eldgosi innan varnagarðanna eða inni í Grindavík, það eru engar áreiðanlegar vísbendingar í gögnum um slíkt. Jafnframt hefur verið sýnt fram á, t.d., í grein sem birtist í tímaritinu „Geophysical Research Letters (De Pascal o.fl. 2024)“, að hreyfingarnar í og undir Grindavík 10. nóvember voru fyrst og fremst vegna hreyfinga um plötuskilin og einungis að litlu leyti vegna kvikuhreyfinga. Hættumat þarf að taka mið af öllum jarðfræðilegum upplýsingum, fornum sem nýjum, sem og öllum mögulegum sviðsmyndum. Slík vinnubrögð eru samfélaginu til heilla.

Byggt á frekar einsleitri sýn

Þorvaldur bendir á að hættumatið frá Veðurstofunni virðist byggt á frekar einsleitri sýn og túlkun á eftirlitsgögnunum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Þeirra sýn er að lárétt færsla á skjálftavirkninni samsvari láréttri færslu á kviku. Þó svo að slíkt geti gerst, þá er það ekki algild regla. Sprungur geta opnast og lengst í lárétta stefnu, og þá með tilheyrandi skjálftavirkni, án beinnar tengingar við kvikuflæði. Hugmyndin um lárétt kvikuflæði, þ.e. kvikuhlaup, er nátengd túlkun sumra jarðvísindamanna á umbrotunum í Kröflu á árunum 1975-84. Í þeirri sviðsmynd er gert ráð fyrir því að öll kvika sem tengist umbrotunum safnist fyrst fyrir í grunnstæðu (þ.e. á <9 km dýpi) kvikuhólfi megineldstöðvar og flæði síðan lárétt út úr hólfinu inn í samliggjandi sprungusveim. Nýlegar athuganir sýna að kvikan sem kom upp í Kröflugosunum kom úr tveimur mismunandi kvikugeymslum, einni sem inniheldur þróaða kviku á 7-9 km dýpi og annarri með frumstæða kviku á meira en 15 km dýpi (Carrol o.fl. 2023). Staðsetning gossprungnanna í Kröflugosunum er slík að kvikan sem kom upp í gosunum getur ekki annað en flætt lóðrétt frá kvikugeymslunum og upp í gegnum gosrásirnar (sbr. meðfylgjandi mynd 1).

Skýringarmynd 1.

Það sama gildir um umbrotin á Reykjanesskaga, þar sem upprunalega kvikan sem er frumstæð, hefur komið frá geymsluhólfi á 9-12 km dýpi (s.br. mynd 2). Í tilfelli Sundhnúka hefur þessi frumstæða kvika fyrst safnast fyrir í grunnstæðu geymsluhólfi á 4-5 km dýpi og þróast þar (þ.e. léttist). Þessi kvikusöfnun er orsökin fyrir landrisinu í og umhverfis Svartsengi. Þegar þessi kvikugeymsla nær þolmörkum þá opnast sprungur í berginu umhverfis. Kvikan flæðir þá um þær út úr geymslunni og til yfirborðs í eldgosi. Í sviðsmyndinni þar sem þessi kvika flæðir lárétt út úr geymslunni sem „kvikuhlaup“ sem á að mynda kvikugang eftir Sundhnúkagosreininni, sem að jafnaði á að vera jafnlangur og dreifingin á skjálftavirkninni, þá þarf kvikan fyrst að flæða einhverja vegalengd í austur og síðan nokkra kílómetra til norðurs og suðurs á 3-4 km dýpi undir Sundhnúkareininni áður en hún kemur upp í eldgosi, eins og gefið er til kynna með svörtu örinni og örvamerkjunum á 2. mynd.

Ef við skoðum athuganir á framvindu eldgosanna í Sundhnúkum nánar, þá kemur í ljós að öll eldgosin, að 14. janúar gosinu undanskildu, hófust með opnun á stuttri (~500 m langri) gossprungu um hálfan til einn kílómetra suðaustur af Stóra-Skógfelli. Þetta bendir til þess að þegar kvikan fer af stað úr grunnstæðu kvikugeymslunni þá notar hún sömu gosrásina aftur og aftur. Jafnframt, þá er afstaða gossprungunnar þannig að kvikan er meira og minna að flæða lóðrétt upp úr þessari grunnstæðu geymslu (sbr. mynd 2). Í framhaldi, og samfara aukningu í afli gossins, þá lengist gossprungan um allt að 2 km til norðurs og 2-3 km til suðurs (þ.e. að Hagafelli), rétt eins og væri verið að opna blævæng. Í þessari sviðsmynd þá endurspeglar lengingin flæði kviku eftir grunnstæðri sprungu allra efst í skorpunni (c.a. efsta kílómetranum). Þegar afl (þ.e.framleiðni) gossins fellur, þá dregst flæðið saman og myndar afmarkaða rás, sem fram til þessa hefur oftast legið að svæðinu við Sundhnúk. Hvað 14. janúar varðar, þá virðist kvikan hafa fundið beina leið upp í gossprunguna rétt sunnan við Hagafell og frá henni flæddi síðan afgösuð kvika eftir mjög grunnstæðri sprungu, sem var varla á meira en 100 metra dýpi, og komst þannig í skotfæri við húsin norðaustan í Grindavík.“

Skýringarmynd 2.

Ekki sammála nálguninni

„Það er alltaf verið að tala um kvikugang sem nær eða gæti náð undir Grindavík,“ segir Þorvaldur. „Ég vil meina að svo sé ekki. Í fyrri sviðsmyndinni sem fjallað er um hér að framan, þá er gert ráð fyrir því í líkanreikningunum að dreifingin á skjálftavirkninni endurspegli lárétt flæði á kviku. Sem sagt, ef skjálftavirknin nær alla leið undir Grindavík, þá nær kvikugangurinn líka alla þá leið. Þetta er sviðsmyndin sem Veðurstofan notar við sitt hættumat.

Ég og nokkrir aðrir sérfræðingar erum ekki alveg sammála þessari nálgun og aðhyllumst frekar framvindunni sem er lýst í seinni sviðsmyndinni hér að framan. Samkvæmt því þá er lang líklegast að næsta gos, sem miðað við landrisið getur orðið innan tveggja vikna, komi upp á sama stað og fyrri gos, þ.e. suðaustan við Stóra-Skógfell. Jafnframt er lang líklegast að framvinda gossins verði eins og hún var í síðustu tveimur gosum, aflmikið í byrjun og hröðu falli á afli. Gossprungan verður álíka löng og í þeim gosum, bara spurning hvort að langtímavirknin setjist til í gígum við Sundhnúk eða sunnar, t.d. við endann á Hagafelli. En, það mun ráða miklu um áhrif hraunflæðis á innviði. Því miður, þá getur þetta ástand varað næstu mánuðina eða árin, jafnvel áratugina, þannig að við verðum einfaldlega að læra að lifa með ástandinu og það er vel mögulegt.“

„Ef við undanskiljum vellinginn frá gosinu 14. janúar, þá tel ég nánast engar líkur á því að kvika komi upp í eldgosi inni í Grindavík. Sú staðreynd að það hefur ekki gosið á svæðinu þar sem Grindavík stendur á síðustu 14 þúsund árum rennir stoðum undir þessa ályktun. Jafnframt sé ég ekkert í gögnunum og athugununum sem bendir til þess að kvika hafi flætt undir Grindavík þann 10. nóvember.“

Faglegri vinnubrögð

Það hefur nánast mátt stilla klukkuna eftir þeim forsendum að þegar jákvæð frétt birtist um Grindavík, kemur frétt frá Veðurstofunni í kjölfarið, t.d. að undanförnu um að líklegt sé að næsta eldgos verði nær Grindavík, jafnvel innan varnargarða. Út af hverju telur Þorvaldur þetta stafa og hvað vill hann sjá til að laga stöðuna?

„Ég held að þetta komi til af því, eins og ég minntist á hér að ofan, að hættumatið er byggt á frekar einsleitri sýn og túlkun á eftirlitsgögnunum og að við treystum um of á reiknilíkön. Það þarf að horfa á öll gögn, ekki bara jarðskjálftana og landrisið, heldur líka gossögu svæðisins, hegðun og framvindu fyrri gosa og hraunflæðis, efnasamsetningu kvikunnar, gasútstreymi, svo eitthvað sé nefnt. Jafnframt eru möguleikarnir í mati á stöðunni ekki skoðaðir nægilega gaumgæfilega.

Hvað hættumatið varðar, þá er grundvallarmunur á útkomunni ef fyrri eða seinni sviðsmyndin sem lýst er hér að ofan er notuð.

Fyrri sviðsmyndin, eðlis síns vegna, leiðir til útkomu þar sem eldgos og/eða meiriháttar umbrot inni í Grindavík eru með há líkindi, sbr. hættumat Veðurstofunnar. Í seinni sviðsmyndinni, þá eru mestar líkur á því að eldvirknin og umbrotin afmarkist að mestu við svæðið á milli Stóra-Skógfells og Hagafells (þ.e., Sundhnúka-gosreinina) og mjög litlar líkur á því að gos komi upp inni í Grindavík og ef hraun stefnir í átt að bænum þá ætti viðbragðstíminn samt sem áður að vera nægur og undankomuleiðir tryggar. Samkvæmt þessu, þá mætti vera með svipaðar ráðstafanir fyrir Grindavík og nú eru í gangi fyrir Bláa lónið.“

Staðan sé skoðuð og greind út frá öllum hliðum

„Af þessum sökum er mjög mikilvægt að staðan sé skoðuð og greind út frá öllum hliðum og út frá mismunandi sviðsmyndum, ekki bara út frá þeirri sem er í náðinni á hverjum tíma. Niðurstaðan, þ.e. hættumatið, þarf að vera greind og rýnd af óháðum hópum og síðan þarf einnig að skoða samfélagsleg áhrif niðurstöðunnar og reyna að draga úr þeim eftir megni.

Það er mjög hæft jarðvísindafólk sem vinnur hjá Veðurstofunni, og nokkrir þar sem ég hef kennt og leiðbeint í gegnum tíðina. En ég myndi gjarnan vilja sjá þau meira á vettvangi, það er mikill munur á því að vera á staðnum og fá atburðinn beint í æð eða sjá hlutina eingöngu í gegnum linsuna á myndavél og sem gögn á tölvuskjá.

Mat Veðurstofunnar á stöðunni er sent til Almannavarna. Samkvæmt minni bestu vitund þá er þar bara einn faglærður jarðvísindamaður í föstu starfi. Þeir þurfa að vera fleiri að mínu mati, eða 4-5 faglærðir sérfræðingar í náttúruvá sem geta rýnt niðurstöðu hættumatsins frá Veðurstofunni og gefið sína umsögn þar af lútandi, sem og gert tillögur um breytingar ef þeir telja að þörf sé á því. Lokaákvörðun um aðgerðir er svo hjá Lögreglustjóra þess umdæmis sem er undir tilskilinni vá, sem ber einnig ábyrgð á þeim ákvörðunum sem eru teknar og aðgerðum sem settar eru í framkvæmd. En eins og staðan er í dag, þá hefur lögreglustjórinn ekki aðgang að óháðri faglegri ráðgjöf í þessu ferli og verður því, í blindni, að fara eftir ráðleggingum Veðurstofunar og Almannavarna. Þetta er alls ekki nógu gott og við getum gert miklu betur en þetta,“ segir Þorvaldur.

Hættumat Veðurstofunnar

Þorvaldur á erfitt með að skilja að það sé í lagi að tæplega þúsund manns séu samankomnir í Bláa lóninu, en á sama tíma getur almenningur ekki farið til Grindavíkur og skoðað hvað gekk á.

„Að sjálf Grindavík sé búin að vera rauðmerkt meira og minna síðan 10. nóvember er sambærilegt við að það sé stöðugt rautt ljós á umferðarljósunum. Hvað gerir ökumaðurinn? Hann endar á að gefast upp og fer yfir á rauðu ljósi. Sama gildir um Grindavík, rauður litur á hættumatskorti þýðir að bráð hætta sé yfirvofandi. Sú staða er ekki alltaf uppi við í Grindavík og þess vegna missir hættumatið marks að mínu mati. Við þurfum að temja okkur vinnubrögð sem hjálpa okkur við að nota græna, gula, appelsínugula og rauða ljósamerkið á uppbyggilegan og skynsaman hátt.

Bláa lónið er opið og á sama tíma er Grindavík lokuð. Fólki er bannað að koma inn í bæinn og þ.a.l. eiga mörg fyrirtæki ekki möguleika á að halda sér á lífi. Það hefur heyrst að allur vesturhluti Grindavíkur sé í lagi, búið er að jarðvegsskanna bæinn og stór meirihluti húsa í bænum eru í lagi. Mælir eitthvað á móti á því að gera við þær götur sem þarf að gera við og opna bæinn?

Ef bærinn er opnaður tímabundið, þ.e. þegar hann er á „grænu ljósi“, þá þarf að hafa allar útgönguleiðir greiðar og tilbúna viðbragðsáætlun ef kemur til rýmingar á bænum vegna umbrotanna. Þá legg ég þunga áherslu á, að ég hef enga trú á að það muni nokkurn tíma gjósa inni í Grindavík. Jafnframt tel ég litlar líkur á að það sami endurtaki sig og gerðist 14. janúar. Það kæmi mér ekki á óvart ef eldgosum á Sundhnjúkagígaröðinni fari að ljúka og þau færist vestar á Reykjanesskagann. Þegar sá tími kemur, þá ætti ekkert að hindra það að Grindvíkingar leggi grunninn að því að hefja eðlilegt líf að nýju, það mun taka tíma en á einhverjum tímapunkti þarf að byrja,“ sagði Þorvaldur að lokum.