Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Telur blómin það fallegasta í heimi
Elínrós í Bíósalnum í Duus húsum. Sýningin er að hluta til yfirlitssýning og eru þar málverk, teikningar, skissur, postulín og skartgripir.
Fimmtudagur 1. september 2016 kl. 10:50

Telur blómin það fallegasta í heimi

Fór fertug í myndlistarnám og hefur haft listina að atvinnu síðan

Blómahaf nefnir Elínrós Blomquist Eyjólfsdóttir sýningu sína í Bíósalnum sem opnar í dag, fimmtudag, klukkan 18:00 og stendur til 30. október. Á sýningunni, sem verður að hluta til yfirlitssýning á verkum hennar, getur að líta málverk, teikningar og skissur, postulín og skartgripi. Sýningarstjóri er Gunnhildur Þórðardóttir myndlistarmaður.

Ein myndanna á sýningunni er íkon sem gerður var með sérstakri aðferð frá tólftu öld og er 24 karata blaðgull lagt á bakgrunninn. Alls hefur Elínrós gert sjö íkona og hefur fyrir reglu að gefa barnabörnum sínum eina slíka í fermingargjöf. Eins og yfirskrift sýningarinnar gefur til kynna eru flest verkin myndir af blómum enda eru þau í sérstöku uppáhaldi hjá listakonunni. „Blómin eru það fallegasta á jörðinni. Hvergi annars staðar finn ég eins fallega liti og í blómunum,“ segir Elínrós sem málar alltaf frá hjartanu og eftir lifandi blómum og uppstillingum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Elínrós hefur lengst af búið í Reykjanesbæ en hún ólst upp á Akureyri til 12 ára aldurs. Á árum áður rak hún verslunina Álnabæ og fékkst við önnur verslunarstörf. Hún er orðin 75 ára og er ekkert á leiðinni að setjast í helgan stein. „Það er alltaf svo gaman hjá mér í vinnunni. Í myndlistinni er alltaf hægt að bæta sig og læra eitthvað nýtt. Ég verð í þessu á meðan ég tóri,“ segir Elínrós sem byrjaði sinn feril í Baðstofunni í Keflavík hjá Eiríki Smith. Þegar hún varð fertug og börnin hennar tvö uppkomin ákvað hún að flytja til Reykjavíkur í nokkur ár og nema myndlist við Myndlista- og handíðaskóla Íslands.

Hún hélt áfram að þróast sem listamaður með því að sækja námskeið hjá þekktustu kennurum beggja vegna hafsins. Árið 1995 lauk hún meistaranámi í málun frá Skidmore College í Bandaríkjunum.
Listamannaspjall með Elínrós verður sunnudaginn 4. september klukkan 15. Sýningin verður opin alla daga frá klukkan 12 til 17 og stendur til 30. október.

Áklæðið á stólnum saumaði Elínrós þegar hún var tvítug og er hann meðal muna á sýningunni. Á veggnum má sjá ikoninn sem meðal annars er gerður úr 24 karata blaðgulli. VF-myndir/dagnyhulda