Tekur alltaf fimmtudagsrölt
-Eva Líf Sigurjónsdóttir lærir kvikmyndagerð í Los Angeles og finnst Ljósanótt verða betri með hverju árinu
Hvað ætlarðu að gera á Ljósanótt?
„Ég verð nýkomin „heim“ aftur til LA eftir yndislegt sumar á Íslandi þannig ég rétt missi af Ljósanótt.“
Er eitthvað sem þú gerir á hátíðinni á hverju ári?
„Ég tek alltaf rölt niður Hafnargötuna á fimmtudagskvöldinu til að skoða og sjá alla menninguna. Svo er alltaf afmælis matarboð hjá frændfólki mínu á laugardagskvöldinu þar sem stórfjölskyldan hittist og röltir saman niður í bæ. Síðast en ekki síst kíki ég alltaf við hjá móður minni í Dís íslensk hönnun en hún verður til húsa á Hafnargötu 21 í ár með glæsilega kjóla á frábæru verði.“
Hvað finnst þér vanta á Ljósanótt?
„Í raun finnst mér ekkert vanta. Mér finnst Ljósanótt verða betri með hverju ári sem líður og dagskráin í ár er frábær.“