Talandi um fegurðina
Laugardaginn 26. febrúar kl. 13:00 í Saltfisksetrinu í Grindavík verður haldinn fyrirlesturinn Talað um fegurðina.
Á þessu ári mun McGill–Queen’s University Press í Montréal gefa út bókina Holdið hemur andann. Um fagurfræði í skáldskap Guðbergs Bergssonar. Af því tilefni mun Birna Bjarnadóttir halda erindi um tildrög bókarinnar, þýðingu og Flórens norðursins. Birna lauk doktorsprófi í fagurfræði nútímabókmennta frá Háskóla Íslands. Hún starfar nú við íslenskudeild Manitóbaháskóla og hefur veitt deildinni forstöðu frá árinu 2006.
Fyrirlesturinn er öllum opinn.
Guðbergur Bergsson fæddist 16. október 1932 í Grindavík. Hann lauk kennaraprófi frá KÍ 1955, hélt síðan til náms á Spáni og lauk prófi í spænskum fræðum, bókmenntum og listasögu frá La Universidad de Barcelona 1958. Fyrsta bók Guðbergs, Músin sem læðist, kom út árið 1961. Eftir hann liggur fjöldi skáldsagna, ævisagna- og endurminningabóka, ljóða, þýðinga og barnabóka og hann er óumdeilt einhver áhrifamesti höfundur okkar á síðari hluta 20. aldar — og raunar fram á þennan dag.
Guðbergur hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir ritstörf sín, m.a. bókmentaverðlaun dagblaðanna 1967, bókmenntaverðlaun DV 1983, Orðu Spánarkonungs(Riddarakross Afreksorðunnar), Íslensku bókmenntaverðlaunin 1992 og 1998 og tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 1993 og 1997. Guðbergur var kjörinn heiðursborgari Grindavíkur 2004 í tilefni 30 ára afmæli Grindavíkurbæjar.