Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Talan 13 orðin happatala
Sunnudagur 16. september 2012 kl. 01:00

Talan 13 orðin happatala

- segir Valgerður Guðmundsdóttir menningarfulltrúi Reykjanesbæjar.

Þrettánda Ljósanótt í Reykjanesbæ tókst með miklum ágætum en tugþúsundir nutu fjölbreyttrar menningar- og skemmtidagskrár í fjóra daga í Reykjanesbæ. Talið er að um 20.000 manns hafi verið á hátíðarsvæði Ljósanætur þegar hún náði hámarki laugardagskvöldið 1. september en þá fóru fram stórtónleikar sem lauk með glæsilegri flugeldasýningu.

Valgerður Guðmundsdóttir menningarfulltrúi Reykjanesbæjar hefur í mörgu að snúast í aðdraganda Ljósanætur enda í mörg horn að líta. Þó svo Ljósanæturhátíðinni sé nýlokið þá er vinnan við næstu hátíð þegar hafin. Víkurfréttir tóku Valgerði tali eftir hátíðina og fyrsta spurningin var auðvitað um hvernig til hafi tekist.

„Ég er nú frekar hjátrúarfull og gat því búist við öllu á þessari þrettándu Ljósahátíð en ég hef einmitt verið viðloðandi Ljósanótt frá fyrstu tíð og því var talan 13 líka tengd mér persónulega, ekki bara hátíðinni!  Það var því gleðileg reynsla að upplifa eina bestu hátíð frá byrjun einmitt þessa helgi og það jafnvel þó veðrið væri frekar að stríða okkur.  Tala 13 er nú orðin happatala hjá mér“.

- Hversu mikil vinna liggur að baki svona hátíð hjá bæjarfélaginu?
„Mjög mikil vinna hjá mjög mörgu fólki liggur að baki svona hátíð. Auk starfsmanna bæjarfélagsins sem koma frá öllum sviðum bæjarins, kemur stór hópur að undirbúningnum, bæði launaðir starfsmenn og ólaunaðir sjálfboðaliðar.  Flest menningarfélögin eru t.d. með uppákomur í tengslum við hátíðina, bæði tónleika og sýningar.  Íþrótta- og tómstundafélögin skila líka sínu t.d. sjá skátarnir og lúðrasveitin um árgangagönguna og sameiginlegur hópur frá körfunni í Njarðvík og Keflavík sér um sölutjöldin og þar með alla sölu á hátíðarsvæðinu.  Björgunarsveitin sér um gæsluna og flottustu flugeldasýningu landsins,  fyrirtækin í bænum sjá um ýmsar uppákomur ásamt fjármögnun með styrkjum, lögreglan og Brunavarnir Suðurnesja sjá um sitt og þannig má lengi telja og þið hjá Víkur-fréttum gerið t.d. ykkar í öflugri kynningu á hátíðinni og viðburðum hennar“.
 
- Hver er aðkoma þín að Ljósanótt. Hver eru þín stærstu verkefni?
„Ég telst framkvæmdastjóri hátíðarinnar og er því nokkurs konar samræmingaraðili, reyni að sjá til þess að allt gangi upp og nóg sé í boði fyrir gesti og gangandi. Með mér starfar hins vegar ótölulegur fjöldi fólks eins og ég nefndi áðan, þéttur og reynslumikill mannskapur  sem gerir það að verkum að þessi hátíð er ein sú besta á landinu. Þetta er hópavinna eins og hún best getur orðið“.

- Hverju finnst þér Ljósanótt skila fyrir bæjarbúa?
„Jákvæðasta hliðin á Ljósanótt er sú að hinn almenni bæjarbúi tekur svo mikinn þátt. Margir eru hluti af sýningunum, tónleikunum eða öðrum skipulögðum viðburðum en svo eru það líka hinir sem taka þátt með því að mæta og njóta, bjóða gestum í súpu, ganga í árgangagöngunni o.s. frv.  Það kom svo vel í ljós á þessari 13. hátíð að vont veður getur ekki einu sinni haldið okkar fólki heima, það mætir hvernig sem veðrið er og er stolt af bænum sínum og þar með af sjálfu sér og það er nú aldeilis jákvætt“.

- Hvað fannst þér áhugaverðast á Ljósanótt í ár?
„Auðvitað ætti ég að nefna fjölda menningarviðburða sem gera Ljósanótt svo einstaka meðal bæjarhátíða landsins en við erum orðin svo vön því, að það þarf ekki að nefna það sérstaklega í sambandi við hátíðina í ár. Það sem ég ætla að draga sérstaklega fram núna er glæsilegasta flugeldasýning sem haldin hefur verið á Íslandi, bæði fyrr og síðar!  Sprengjudeild Björgunarsveitarinnar er sú al-öflugasta sem um getur og með aðstoð HS Orku nutum við einhvers galdurs sem var engu líkur. Þvílíkt sjónarspil!“.

- Tókst þér að skoða margar sýningar/viðburði?
„Með smá skipulagi tókst mér að sjá margar sýningar en ekki þó allar og ekki komst ég heldur á alla tónleikana. Það er bara þannig á Ljósanótt að það nær enginn öllu og það er bara allt í lagi. Sem betur fer heldur menningin í bænum áfram eftir Ljósanótt og því ekki síðasta tækifærið þessa helgi“.

- Fáein orð um sýninguna „Allt eða ekkert“. Þarna er rjóminn af myndlist heimamanna, ekki satt?
„Sá siður hefur skapast á undanförnum árum að heimafólk er alltaf í fyrirrúmi á Ljósanótt, bæði í Listasafninu og annars staðar. Í ár tókst einstaklega skemmtilega til með stórri samsýningu listamanna af svæðinu og á þessari sýningu má glögglega sjá gróskuna og kraftinn sem býr í listafólkinu okkar. Verkin eru svo ólík og listamennirnir líka en einhvern veginn tekst að skapa þarna veröld sem er engu lík. Sýningin er opin til 21. október þannig að ég hvet fólk til að koma og sjá með eigin augum hvað við eigum flotta listamenn“.

Valgerður vill koma á framfæri þakklæti til þeirra fjölmörgu sem tóku þátt í undirbúningnum, bæði nánasta samstarfsfólki hjá bænum og allra hinna sem eiga svo stóran þátt í að gera Ljósanótt að því sem hún er, bestu menningar- og fjölskylduhátíð landsins.  „Það er svo gaman að vinna að góðu verkefni með góðu fólki,“ sagði Valgerður að lokum.

Texti: Hilmar Bragi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024