Tala atvinnulausra fölsuð – Fólk í verkfalli á atvinnuleysisskrá
Það voru deilur á milli manna veturinn árið 1982 eins og sjá má á forsíðu Víkurfrétta 17. janúar. Sagt er frá mikilli lömun í atvinnulífinu vegna verkfalls sjómanna og útgerðarmanna. Tæplega 400 manns voru á atvinnuleysisskrá í Keflavík, Njarðvík og Sandgerði. Mikill meirihluti þessa fólks var atvinnulaust vegna verkfalls sjómanna og verkbanns útgerðarmanna.
Talið var að þessi tala gæfi ekki rétta mynd á atvinnuleysi hér á Suðurnesjunum því við athugun sem Víkurfréttir gerðu kom í ljós að verkalýðsfélögin vísuðu bæði beitningarmönnum og sjómönnum til vinnumiðlunar til að láta skrá sig atvinnulausa. Með þessu móti komust félögin hjá því að greiða fólki úr verkfallssjóði því atvinnuleysissjóður greiddi fólkinu bætur.
Einnig bar töluvert á því að fólk sem vann árstíðarbundin störf s.s. eingöngu á sumrin hafði látið skrá sig á bætur þó vitað væri að þetta fólk ætlaði ekki að stunda vinnu yfir veturinn, svona var þetta kerfi brenglað en þetta fólk hafði rétt til bóta samkvæmt nýbreyttum lögum á þessum tíma.
Fleiri skemmtilegar fréttir má sjá á forsíðu Víkurfrétta þennan dag eins og þegar lögreglan fékk tilkynningu um eldsvoða í íbúðarskúr í vesturhluta Keflavíkur. Þegar lögreglan kom á staðinn var búið að slökkva eldinn en þegar athuguð voru verksummerki í eldhússkápnum kom í ljós heimabrugg sem var hið snarasta gert upptækt.
[email protected]