Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Taka þátt í sam-evrópsku tónlistarverkefni
Fimmtudagur 1. febrúar 2007 kl. 16:13

Taka þátt í sam-evrópsku tónlistarverkefni

Það er svo sannarlega margt á döfinni hjá krökkunum í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar því á næstu vikum munu þau taka þátt í sam-evrópsku verkefni sem nefnist Comenius 1, er til þriggja ára og er hluti af Sókratesaráætlun Evrópusambandsins.
Undirbúningur að þessu verkefni hefur staðið í á annað ár, bæði hérlendis og erlendis, en samstarfsskólar Tónlistarskóla Reykjanesbæjar eru Morpeth grunnskólinn í London og British Council School í Madrid.


Þess má til gamans geta að TR er fyrsti tónlistarskólinn sem hlýtur náð fyrir augum Evrópusambandsins og Alþjóðaskrifstofu háskólastigsins til Sókratesarverkefnisins og lítur skólinn á það sem mikla viðurkenningu fyrir sitt starf. Þar að auki eru skólarnir þrír í samstarfi við hinn virta Guildhall School of Music í London, sem leggur til verkefnisins faglega þekkingu og kennara.
Í verkefninu, sem hefur verið í undirbúningi síðan í desember, felst að fjórir 15 ára nemendur héðan, sem leika á rafgítar, tenórsaxófón, þverflautu og trompet, semja sjálf hluta úr tónverki á móti hinum skólunum tveimur og hittast svo til að stilla hlutana saman, en það verður hins vegar líka notað í enn stærra stykki sem verður frumflutt á Globetown Music Festival í London í næstu viku, þann 8. febrúar.


Þegar krakkarnir fjórir koma heim taka við æfingar með öllum grunnskólanemendum Tónlistarskólans í 3.-10. bekk sem miða að því að frumflytja tónverk á Degi tónlistarskólanna þann 24. febrúar og lýkur þannig fyrsta áfanga þessa þriggja ára verkefnis.


Svo skemmtilega vill til að kennaranemar frá Guildhall skólanum hafa sóst eftir að fá að aðstoða við undirbúning bæði úti í London og hér heima fyrir Dag tónlistarskólanna. Hingað munu þá koma níu kennaranemar undir forystu Sigrúnar Sævarsdóttur frá Keflavík, sem er stjórnandi skapandi tónlistarmiðlunar hjá Guildhall.


Í samtali við Víkurfréttir, sagði Karen J. Sturlaugsson, aðstoðarskólastjóri Tónlistarskólans, að mikill spenningur væri á meðal þeirra nemenda sem unnið hefðu að verkefninu og eftirvænting eftir stóru tónleikunum þann 24. febrúar. Er óhætt að lofa því að enginn verði svikinn af þeim.

 

VF-myndir/Ellert Grétarsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024