Tæpar 1,4 milljónir söfnuðuðst á styrktartónleikum ungmenna
Styrktartónleikar fyrir Grindvíkinga í Hljómahöll sem haldnir voru 7. mars heppnuðust vel. Það var NFS, ungmennaráð Reykjanesbæjar og Fjörheimar sem stóðu að tónleikunum og var upphæðin sem safnaðist, 1.350 þúsund, afhent í Fjölbrautaskóla Suðurnesja mánudaginn 18. mars.
Upphæðinni var deilt á tvo styrktarsjóði, annars vegar styrktarsjóð Grindavíkurkirkju og hins vegar styrktarsjóð Rauða krossins. Geir Sævarsson tók við upphæðinni fyrir hönd Rauða krossins og sr. Elínborg Gísladóttir fyrir hönd Grindavíkurkirkju. Hún sagði að fjármunirnir muni nýtast til góðra verka.
„Þessir fjármunir munu nýtast unga fólkinu í Grindavík. Við erum t.d. að undirbúa ferð fyrir níunda og tíunda bekk í Vatnaskóg og ég er með hugmyndir af samverustundum fyrir ungmennin okkar, þessir fjármunir nýtast vel í slíkt,“ sagði sr. Elínborg.
Leó Máni Nguyén, formaður NFS, var ánægður með hvernig til tókst sem og undirbúningur tónleikanna.
„Það var mjög gaman að undirbúa þetta, sérstaklega var vikan sem tónleikarnir voru haldnir skemmtileg og svo voru auðvitað sjálfir tónleikarnir frábærir, geggjaðir listamenn sem komu fram og gaman hvað við náðum að safna miklum pening fyrir vini okkar frá Grindavík. Ég er viss um að peningarnir verða vel nýttir,“ sagði Leó að lokum.