Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Tælendingamót í Grindavík - Allir bæjarbúar velkomnir
Miðvikudagur 22. júlí 2009 kl. 16:25

Tælendingamót í Grindavík - Allir bæjarbúar velkomnir


Tælenska-íslenska félagið verður með Tælendingamót á tjaldsvæðinu í Grindavík um helgina. Þetta er fjölskylduskemmtun þar sem tælenskar fjölskyldur og vinir eru hvattir til að mæta. Grindvíkingar eru velkomnir, sérstaklega í tælenskan mat sem verður á tjaldsvæðinu á laugardaginn kl. 17 þar sem máltíðin kostar aðeins 500 kr.

Þar verður boðið upp á grillað svínakjöt, grillaðar svínabollur, djúpsteiktar rækjur, núðlur og vorrúllur, sodam og hrísgrjón.

Formleg dagskrá hefst á laugardaginn en þá verður farið í Saltfisksetrið, hellaskoðun, ratleik, fótbolta og fleira. Eftir matinn verður karókí og tælensk hljómsveit tekur lagið.

Phetchada Khongchumchuen og Elsa Ísfold Arnórsdóttir hafa skipulagt Tælendingamótið. Þær segjast renna blint í sjóinn hversu margir mæta. Tjaldsvæðið í Grindavík henti ákaflega vel og þær leggja áherslu á að þetta sé fjölskylduskemmtun og Grindvíkingar séu hjartanlega velkomnir.

Á myndinni eru Petchada og Elsa Ísfold sem voru að skoða tjaldsvæðið í dag.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024