Tækninni fleygir fram í skólastarfinu
Stóru-Vogaskóli er stór vinnustaður í Sveitarfélaginu Vogum. Þar starfa um fjörutíu og fimm manns, þar af tuttugu og fimm kennarar, tíu almennir starfsmenn, auk skólaritara, húsvarðar, starfsfólks mötuneytis, bílstjóra og fleiri. Skólinn er því einn stærsti vinnustaðurinn í sveitarfélaginu og skiptir miklu máli í samfélaginu.
„Ég held að Stóru-Vogaskóli sé að standa sig feikivel í dag eins og skólar um allt land. Hér er mikið af framsæknu fólki sem er annt um að koma menntun til skila og koma ungviðinu áfram,“ segir Hilmar Egill Sveinbjörnsson, skólastjóri Stóru-Vogaskóla, í samtali við Víkurfréttir.
Hafa miklar breytingar átt sér stað síðustu árin og áratugina?
„Já, breytingum fjölgar og verða örari. Við erum alls ekki á sama stað og fyrir tíu árum síðan eða hvað þá tuttugu árum, þannig að það eru örar breytingar í menntamálum.“
Hverjar eru breytingarnar, er það aukin tækni?
„Tækninni fleygir fram og við höfum varla undan að taka við nýrri tækni. Það sem er nýtt í dag verður orðið úrelt fljótlega.“
Hvernig gengur kennurum að tileinka sér tæknina? Það er oft sagt að börnin séu fljótari en fullorðnir að tileinka sér nýjustu tækni.
„Það er allur gangur á því en endurmenntun kennara er orðin mjög þörf í dag og að fólk tileinki sér það nýja sem er á boðstólnum. Börnin eru vissulega á undan okkur í mörgu en þar verðum við að reyna að vera samstíga.“
Sveitarfélagið Vogar er ört stækkandi sveitarfélag og íbúum fjölgar hratt. Er börnunum í skólanum að fjölga til samræmis við það?
„Nei, það er það skemmtilega í þessu eða kannski skrítna, að börnum smá fækkar en við trúum ekki að það verði framtíðarþróun. Börnin eru í dag um 160 talsins en hafa flest verið 220 talsins 2007–2008 en hefur farið fækkandi síðan.“