Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Tæknifræðinemendur útskrifaðir við hátíðlega athöfn
Miðvikudagur 29. júní 2016 kl. 06:00

Tæknifræðinemendur útskrifaðir við hátíðlega athöfn

Kandídatar í tæknifræðinámi Háskóla Íslands og Keilis voru útskrifaðir síðasta föstudag. Námið heyrir undir Rafmagns- og tölvuverkfræðideild HÍ. Var þetta í fimmta sinn sem útskrifaðir voru nemendur í tæknifræði frá Keili til BSc-gráðu við Háskóla Íslands.

Ellefu nemendur voru brautskráðir, sjö úr mekatróník hátæknifræði og fjórir úr orku- og umhverfistæknifræði. Brautskráningin fór fram við hátíðlega athöfn í aðalbyggingu Keilis á Ásbrú og hafa nú í allt 63 nemendur útskrifast úr náminu frá upphafi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sverrir Guðmundsson forstöðumaður tæknifræðinámsins flutti ávarp og afhenti prófskírteini ásamt Helga Þorbergssyni, dósent við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild Háskóla Íslands. Jóhannes Benediktsson, formaður tæknifræðingafélagsins, flutti ávarp og veitti gjafir fyrir vel unnin og áhugaverð verkefni. Viðurkenningar hlutu Helgi Valur Gunnarsson fyrir verkefnið „Pökkunarbúnaður fyrir bláskel“ og Jón Þór Guðbjörnsson fyrir verkefnið „Miðlægur orkustýribúnaður með gagnaflutning um raflagnir“. Þá hlaut Skarphéðinn Þór Gunnarsson viðurkenningu fyrir góðan námsárangur, með 8,3 í meðaleinkunn. 
 
Ellert Arason flutti ávarp fyrir hönd útskriftarnema og Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis, flutti ræðu og stjórnaði athöfninni. Gjafir veittu Tæknifræðingafélag Íslands og HS-Orka.
 
Í tilkynningu frá Keili segir að næst verði tekið við nemendum í tæknifræðinám Háskóla Íslands og Keilis í janúar 2017. Um er að ræða hagnýtt nám sem hentar sérstaklega vel fyrir frumkvöðla og þá sem hafa áhuga á verklegri nálgun í námi og starfi.