Tækifæri til að hugsa hlutina upp á nýtt
Aðalheiður Héðinsdóttir, forstjóri Kaffitárs:
Það sem stendur uppúr á þessu ári er hrun gilda og verðmætamats sem flestir Íslendingar voru farnir að tileinka sér. Það hefur verið hressilega hrist upp í okkur sem þjóð og við þurfum að horfa á okkur með nýjum gleraugum. Þetta er okkur hollt og verður líklega til gæfu þegar frá líða stundir. Nýtt ár veitir okkur tækifæri til að hugsa hlutina uppá nýtt; hvert okkar verður að leggja sitt að mörkum við að skapa þjóðfélagið sem við getum verið stolt af. Samhugur og samvinna eru gildi sem vonandi fer meira fyrir; að maður tali nú ekki um að velja íslenskt!
Persónulega þá var þetta ár einstaklega gott. Við hjónin ferðuðumst mikið innanlands og fórum í margar, margar, margar fimmtugsafmælisveislur.
Ferðir mínar til kaffiræktunarlanda voru lærdómsríkar, skemmtilegar og gjöfular fyrir okkur og bændurna sem við verslum við; og svo ekki sé minnst á íslenska kaffiunnendur. Börnin okkar eru öll að takast á við verkefni sem hugur þeirra stefnir til. Það eru forréttindi Íslendingar að geta valið sér störf og menntun út frá áhuga og færni.
Á nýju ári ætlum við í Kaffitári að halda áfram að byggja upp fyrirtækið okkar með gildunum ástríða, fagþekking, alúð og fjölmenning. Eins og áður þá er ég full bjartsýni og gleði yfir því að fá að taka þátt í samfélaginu og fá að leggja eitthvað af mörkum.