Sýrður rjómi í uppáhaldi hjá kassadömu í Njarðvík
Síðasti viðkomustaður viðskiptavina verslana þegar þeir fara að versla í matinn er hjá kassadömunum. Þær sjá um að renna vörunum sem valdar hafa verið af kostgæfni í versluninni yfir geislann og í hvert sinn tístir kassinn og kassadaman brosir framan í mann þegar hún nefnir upphæðina sem verslað er fyrir. Á föstudögum myndast oft langar biðraðir við afgreiðslukassa í verslunum og þá er álagið mikið á dömurnar, enda margar vörur dregnar yfir geislann á þeim dögum.
Ingibjörg Hallgrímsdóttir er 18 ára kassadama í Bónus í Njarðvík og henni finnst gaman í vinnunni. „Ég fór að vinna hérna þegar búðin opnaði í apríl,“ segir Ingibjörg og brosir. En hvernig er þetta starf? „Þetta getur verið erfitt, en samt ógeðslega gaman,“ segir hún og þegar hún er spurð út í það hvort hún hafi lent í einhverjum spennandi uppákomum svarar hún: „Ekki neinum sem ég man eftir, en eiginlega gerist eitthvað skrýtið fyrir mann á hverjum degi.“
Ingibjörg segist stundum lenda í brjáluðum kúnnum. „Það kemur stundum fyrir og oftast er það vegna misskilnings og þá skiptir mestu máli að vera róleg og kurteis,“ segir Ingibjörg og bætir því við að málin leysist alltaf farsællega.
Sumir velta því fyrir sér þegar þeir standa í biðröðinni við afgreiðslukassa í verslun og horfa á kassadömuna draga vörurnar yfir geislann hvort hún muni verðin á vörunum. „Ég man verðið á fullt af vörum,“ segir hún og um leið biður blaðamaður hana um að finna til 5 hluti sem hún man verðið á. Hún týnir til lyklakippu, Extratyggjópoka, hlýrabolspakka, tromp súkkulaði og kókómjólk. En uppáhaldsvaran hennar Ingibjargar er 18% sýrður rjómi. „Ég kann strikamerkið utan af á sýrða rjómanum,“ segir hún brosandi og bíður næsta viðskiptavini góðan daginn.
VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson: Ingibjörg við kassann í Bónus í Njarðvík með nokkrar vörur fyrir framan sig sem hún kann verðið utan að.