Sýnir „Pabba“ í samstarfi við Kkd Keflavíkur
Leikritið Pabbinn hefur notið mikilla vinsælda síðan það var frumsýnt í Iðnó í lok janúar. Áhugasamir Suðurnesjamenn þurfa ekki að leita langt yfir skammt því Bjarni Haukur Þórsson, höfundur og eini leikarinn í þessum bráfyndna einleik, hefur ákveðið að sýna eitt skipti í Íþróttahúsinu í Keflavík næstkomandi sunnudag.
Körfuknattleiksdeild Keflavíkur stendur fyrir sýningunni og má nálgast miða í síma 896-6299 og í Skóbúðinni á Hafnargötu 35. Miðaverð er kr. 2700 líkt og á almennar sýningar í Iðnó.
Bjarni Haukur vakti landsathygli með frammistöðu sinni í Hellisbúanum fyrir nokkrum árum og sagðist í samtali við Víkurfréttir lofa tæpum tveimur tímum af stanslausri skemmtun.
„Við erum að spá í mannseðlið og hugleiða föðurhlutverkið og sjá hvernig Hellisbúinn sem við allir erum, bregst við þegar við verðum pabbar.“
Varðandi samstarfið við körfuknattleiksdeildina segist Bjarni ekki vera frægur að endemum fyrir knattleikni á því sviði þó hann hafi leikið handbolta og fótbolta á sínum yngri árum. „Auk þess hef ég hingað til ekki þótt hávaxinn maður, en það er bara gaman að geta styrkt gott starf eins og er í körfuboltanum í Keflavík.“