Sýningunni Heimskautin heilla berast gjafir frá Frakklandi
Líkan af kajak úr eigu Charcots og líkan af rannsóknarskipinu Pourquoi pas ?
Þriðjudaginn 18. september verða sýningunni Heimsskautin heilla gefnir tveir merkismunir til minningar um heimskautafarann og skipherrann Jean-Baptiste Charcot.
Annars vegar afhendir dótturdóttir Charcots, Anne-Marie Vallin-Charcot líkan af kajak sem innfæddir gáfu Charcot í einum af rannsóknarleiðöngrunum til Grænlands á fyrri hluta 20. aldarinnar.
Hins vegar verður sýningunni gefið veglegt líkan af rannsóknaskipinu Pourquoi pas ?.
Franski heimskautafarinn, leiðangursstjórinn og læknirinn Jean-Baptiste Charcot (1867–1936) var einn þeirra merkismanna sem fyrstir könnuðu og kortlögðu haf- og landsvæðin umhverfis heimsskautin í byrjun síðustu aldar, en meðal annarra þekktra heimskautafara þessa tíma má nefna Amundsen, Scott, Nordenskjöld og Peary.
Þekktasta skip hans var Pourquoi pas ? – sérútbúið rannsóknaskip með þremur rannsóknastofum og bókasafni. Í ferðum þess voru gerðar margvíslegar vísinda–rannsóknir sem þykja stórmerkar enn þann dag í dag.
Þann 16. september 1936 lenti skipið í miklu og óvæntu óveðri út af Garðskaga, hraktist upp í Borgarfjörð og fórst á Hnokka út af Álftanesi á Mýrum. Alls létust 40 manns, 23 fundust látnir, 17 var saknað og fundust aldrei og einn áhafnarmeðlimur komst lífs af.
Sýningin Heimskautin heilla var opnuð í Háskólasetri Suðurnesja í Sandgerði 25. febrúar 2007. Sýningunni er ætlað er að varpa ljósi á ævi og starf þessa merka manns. Þar hefur verið leitast við að endurskapa það magnaða andrúmsloft sem ríkti um borð í rannsóknaskipunum á sínum tíma, en auk þess hefur verið safnað saman margvíslegum fróðleik í máli og myndum um ævi Charcots og störf.
Þriðjudaginn 18. september bætast tveir merkir gripir við sýningarkostinn. Annars vegar afhendir dótturdóttir Charcots, frú Anne-Marie Vallin-Charcot, líkan af kajak sem innfæddir gáfu Charcot í einum af rannsóknarleiðöngrunum til Grænlands á fyrri hluta 20. aldarinnar.
Hins vegar verður sýningunni gefið veglegt líkan af rannsóknaskipinu Pourquoi pas ?. Líkanið gerði maður að nafni Acard (1922 – 1988) sem bjó í Le Havre í Norður-Frakklandi. Eftirlifandi eiginkona hans gefur líkanið í minningu eiginmanns síns og áhafnarinnar á Pourquoi pas ?.