Sýningin Völlurinn opnar - síðasta máltíðin og stjórnklefi orustuþotu
Matardiskur með afgangi síðustu máltíðarinnar í mötuneyti varnarliðsins, stjórnklefi F-15 orustuþotu og hluti girðingar og gaddavír sem lokaði herstöðinni á Keflavíkurflugvelli eru meðal muna á sýningunni Völlurinn sem opnuð verður í Duushúsum á morgun mánudag 30. mars kl. 18 en þann dag eru 60 ár liðin frá því að Alþingi samþykkti að Ísland yrði stofnaðili að NATO.
„Líst þér ekki vel á. Þú finnur kanalyktina hreinlega hérna inni,“ sagði Tómas Knútsson þegar fréttamaður VF leit við í gær en hann er meðal starfsmanna sem hafa unnið við uppsetningu sýningarinnar.
Tómas, fyrrverandi slökkviliðsmaður á Keflavíkurflugvelli en oftast nú orðið kenndur við Bláa herinn, hefur unnið ákveðið hreinsunarstarf á Vellinum því hann passaði upp á ýmsa hluti þegar Varnarliðið var að undirbúa brottförina frá Keflavík. Tók þá í sína gæslu því hann var svo sannarlega með sýningu í huga um þennan merkilega tíma Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Hverjum hefði t.d. dottið í hug að biðja um síðasta matardiskinn í mötuneytinu og hluta girðingarinnar sem umlukti þetta sérstaka pláss.
Myndir og munir frá rúmri hálfri öld Keflavíkur herstöðvarinnar eru sýndir á þessari skemmtilegu sýningu Byggðasafns Reykjanesbæjar og er hún liður í viðleitni safnsins til að varðveita og sinna þessari sérstöku sögu Vallarins sem var ekki aðeins herstöð, heldur heilt byggðarlag með skólum, kirkju, sjúkrahúsi, verslunum, kvikmyndahúsi, skemmtistöðum, útvarpi, sjónvarpi, blaðaútgáfu og öðrum fylgifiskum daglegs lífs, verkstæðum og vinnustöðum.
Allt var þar með öðrum brag, hvort heldur það var rafmagn, byggingar, húsbúnaður eða gjaldmiðill, þar var allt upp á ameríska vísu.
Í hugum flestra Íslendinga var Keflavíkurflugvöllur fyrst og fremst pólitískt bitbein. Fyrir Suðurnesjamenn var hann stór vinnuveitandi og nágranni innan girðingar.
Þeir þúsundir Íslendinga sem ýmist unnu á Vellinum eða komu þangað í ýmsum erindagjörðum hljóta að bíða spenntir eftir þessari sýningu.
Það var í nógu að snúast hjá Ástu og Helgu við uppsetningu sýningarinnar um helgina.