Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Sýningin Ferðir opnar í Suðsuðvestur
Föstudagur 12. október 2007 kl. 13:30

Sýningin Ferðir opnar í Suðsuðvestur

Laugardaginn 13.október kl.16:00 opnar Kristinn G. Harðarson sýninguna „FERÐIR“ í Suðsuðvestur.

Sýningunni er skipt í tvennt. Stærstur hluti hennar er í húsakynnum SSV en hinn hlutinn á vefnum: http://notendur.centrum.is/kristgh/ferdir/
Verkin á sýningunni eru öll í grunninn ferðasögur. Þau lýsa hvert um sig ferð frá einum stað til annars. Á margan hátt taka þau mið af hinni “dæmigerðu” gömlu ferðasögu, því bókmenntaformi þar sem ferðalangurinn segir frá ferð sinni. Þar er umhverfinu lýst, staðarbúum og siðum þeirra, ýmsum uppákomum og atvikum. Oftar en ekki opinberar sögumaður sig þó í leiðinni: þjóðfélagsstöðu sína og fordóma í bland við skoðanir ásamt viðteknum hugmyndum og tíðaranda heimahaganna.

Verkin eru unnin á árunum 1998 – 2007 og má því segja að þetta sé einhverskonar samtekt eða yfirlitssýning á þessum ferðaverkum. Hin stórbrotnari mannvirki og náttúruundur sem rísa upp úr flatneskju umhverfis og hversdags og krefjast athygli er ekki það sem vekur sérstaka eftirtekt Kristins. Hjá honum er augunum frekar beint að því athyglisverða sem leynist í hinu almenna og hversdagslega. Oft er það eitthvað sem blasir við en þarf samt að staldra við til að sjá í raun og veru.

Mörg verkin eru afrakstur gönguferða þar sem hugleiðingar spinnast út frá því sem fyrir augu og eyru ber. Stundum er unnið út frá fyrirfram ákveðinni leið, en önnur byggjast á tilfallandi gönguferðum. Í verkunum er athyglinni einnig beint að mismunandi tegundum skynjunar og öflunar upplýsinga og hvernig við skynjum umhverfið á mismunandi hátt eftir því hvert sjónhorn okkar er hverju sinni. Í úrvinnslunni koma svo inn í myndina ýmsar tegundir framsetningar og frásagnarforma. Ferðalagið sem fyrirbrigði er skoðað út frá ólíkum sjónarhornum og ferðasöguformið togað og teygt á ýmsa vegu. Í leiðinni eru hin ýmsu tengsl skoðuð, svo sem samband texta og myndar og myndar og hreyfingar. Notkun nýrri miðla og aðferða, svo sem vídeó, vefs og hreyfimynda, er tengt hefðbundnari miðlum og efni, svo sem blýanti, vatnslit og bók. En það er einmitt ein af hinum undirliggjandi hugmyndum að tengja saman það gamla og hið nýja hvað varðar efnivið, hugmyndir, aðferðir og framsetningu. Hver miðill hefur sína eiginleika sem nýtist í frásögninni, en hann einn nær aldrei að skila öllum þáttum upplýsinga og upplifunar. Miðillinn sjálfur er eins konar filter sem tekur þátt í frásögninni og litar hana. Mismunandi frásagnaraðferðir í einu verki geta líka myndað nýjar tengingar, tilfinningu og heildarupplifun.

Sýningin stendur til 18. nóvember. Opnunartími Suðsuðvestur er á laugardögum og sunnudögum frá kl.13:00 til kl.17:30 og eftir samkomulagi.
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024