Sýning Guðnýjar Rósu framlengd
Sýningu Guðnýjar Rósu Ingimarsdóttur sem opnuð var í Suðsuðvestur í lok nóvember hefur verið framlengt til 13 janúar.
Sýningin samanstendur af hljóðverki og teikningum. Teikningarnar eru unnar með ólíkum efnum og aðferðum ýmist á pappír eða þær eru skornar út beint á vegg.
Líta má á teikningarnar sem endurvinnslu á þeim sjálfum þar sem grunnur þeirra eru oft verk frá námsárum Guðnýjar Rósu. Hún nýtir sér t.d. tilraunir sem hún gerði á handgerðum pappír frá 1993, gamall notaður kalkípappír fær nýtt hlutverk og jafnvel gömul framhaldsskólapróf verða líkari knipplingum. Teikningar Guðnýjar Rósu geta tekið sífelldum breytingum ílengist þær á vinnustofunni því þar er engu hent.
Guðný Rósa hefur verið búsett í Belgíu frá árinu 1994 og tekið þátt í sýningum þar og víðar í Evrópu. Hún starfar með www.koraalberg.be í Antwerpen og www.galerie-conrads.de í Düsseldorf.
Guðný Rósa sýndi síðast hér heima árið 2006 í Skaftfelli.