Sýning á 80‘s tölvum í Keili
– sýningin opin föstudag frá kl. 14:00
Næsta föstudag (27. nóvember) gefst tækifæri til að bregða sér aftur til 9. áratugar síðustu aldar og skoða sýnishorn af þeim tölvubúnaði sem ruddi veginn úr rannsóknarstofum og vísindastofnunum yfir í smærri fyrirtæki og síðan heim í stofu til tækniþyrstra dellukarla.
Þórhallur Ragnarsson, nemandi í Tæknifræðinámi Háskóla Íslands og Keilis, hefur safnað tölvum um árabil og sýningin er verkefni sem hann skilaði í námskeiði í tövluhögun við skólann.
Meðal búnaðar á sýningunni eru Sinclair tölvur, Amstrad, IBM PC, Macintosh Plus og Atari. Upplýsingar um búnaðinn eru teknar saman á veggspjöldum, flestar tölvurnar eru gangfærar og hægt að sjá hvernig hugbúnaður var í boði til leikja og starfa. Hermar (emulators) verða í gangi á nútímatölvum og þeir sem vilja geta spreytt sig á einföldum forritunaræfingum í BASIC og ef til vill fleiri málum.
Sýningin verður opin frá klukkan 14:00 og er í stofu A4 í Keili, Grænásbraut 910, Ásbrú. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.
Þórhallur forritar Sinclair ZX81 tölvu, en þær voru settar saman af notendunum sjálfum. Fyrir miðri mynd er Sinclair Spectrum 48K, vinsæl leikjatölva.