Syngur með ókunnugum í appinu Sing
Hulda Matthíasdóttir er 21 árs úr Garðinum en er búsett í Reykjavík þar sem hún stundar atvinnuflugnám við Flugskóla Íslands. Hulda eyðir nánast öllum sínum tíma í námið þessa dagana en reynir að finna tíma til að hitta vinina og hreyfa sig en auk þess finnst Huldu gaman að syngja og notar til þess appið Sing.
Uber: Þegar ég kynntist Uber komst ég að því að það er mjög auðveld leið til að komast leiðar sinnar! Þetta er mjög hentugt, þú velur hvar og hvenær bílstjórinn sækir þig og sérð þar hvað þú borgar fyrirfram. Maður getur fylgst með bílstjóranum á korti hvar hann er staddur á leiðinni til manns.
Waze: Waze er leiðsögu- og kortaapp sem tekur mið af umferð og hjálpar manni að komast sem fljótast á áfangastað. Þar sem ég er nýflutt til Reykjavíkur kemur þetta app sér mjög vel til að finna stystu leiðirnar á áfangastaði eða næstu búðir og bensínstöðvar.
Airports: Þar er hægt ná sér í upplýsingar um flestalla flugvelli í heiminum. Þar færðu til dæmis upplýsingar um flugbrautir, hver lengd og breidd hennar er og úr hvernig efni hún er. Getur einnig skoðað veðurspá fyrir völlinn og núverandi veður og hvaða tegundir af aðflugi er hægt að nota.
Facetime: Við vinkonurnar notum Facetime óspart þar sem við erum allar frekar uppteknar í skóla og vinnu. Þar sem við hittumst minna en í sumar þá er meiri „nánd“ í því en að spjalla á samfélagsmiðlunum. Gerum ótrúlegustu hluti saman þar.
Sing: Mæli með þessu appi fyrir fólk eins og mig sem finnst gaman að syngja lög „karaoke“. Einfaldlega velur lagið þitt, tengir heyrnatól við símann og syngur ein eða með öðru fólki sem er líka með aðgang.