Syngjum og hlustum á jólalög á pólsku og það er góð stund
Katarzyna Þóra Matysek er frá Póllandi og starfar sem kennari í Háaleitisskóla í Reykjanesbæ. Hún á mann og þrjú börn sem eru tveggja og hálfs árs, níu ára og þrettán ára. Börnin elska íslensku jólasveinana þrettán og fjölskyldan reynir að blanda saman menningu og taka allt það sem er frábært í bæði íslenskri og pólskri jólamenningu.
Hvernig hagar þú jólagjafainnkaupum?
Ég reyni að nýta tækifæri þegar ég er í Póllandi og ég kaupi eitthvað sem er ekki hægt að kaupa á Íslandi, til dæmis pólskar bækur, pólsk borðspil eða eitthvað annað. Það er gaman að finna eitthvað sérstakt. Flestir gera þetta ef þau fara til útlanda og sjá eitthvað skemmtilegt, það er eðlilegt. Ég byrja frekar seint að versla gjafir og ég hugsa ekki um þetta fyrr en í október.
Á Íslandi kaupi ég alltaf lopapeysur, sokka, útiföt og íslenskar bækur ef það er á jólalistanum. Ég panta frekar á netinu bæði hér og úti.
Mér finnst ekki gaman að fara í búðir þegar mikið af fólki er út um allt. Ég er ekki IKEA eða „moll“ manneskjan. Ég fer frekar í desember í smá bíltúra og göngutúra til að skoða öll jólaljósin og allt jólaskrautið. Ef ég þarf að kaupa auka gjafir fer ég stundum að versla í Kringlunni en ekki mikið.
Hvað með jólaskreytingar, eru þær fyrr í ár? Skreytir þú heimilið mikið?
Fjölskyldan mín hefur oft sett skreytingar upp í desember en núna á þessu ári fannst mér gott að hafa kósý og meiri birtu í lok nóvember. Við erum búin að hengja upp jólaseríur en við ætlum að gera meira rétt fyrir jólin þegar allir eru komnir í frí. Við viljum ekki hafa of mikið dót heima og það á einnig við um jólaskraut. Okkur finnst smekklegra að hafa ekki of mikið. Við perlum, teiknum snjókorn, jólasveina, jólakúlur til að hengja upp heima hjá okkur. Þetta er heimagert skraut. Jólatréð er aðalskrautið á heimilinu okkar og að skreyta tréð er mikilvægast fyrir okkur. Jólatré er alltaf sett upp rétt fyrir 24. desember.
Bakarðu fyrir jólin? Áttu þér uppáhaldssmáköku?
Við bökum alltaf piparkökur. Þetta er fjölskylduhefðin okkar og það er alltaf gaman hjá okkur á þessari stundu. Krakkarnir mínir mála og skreyta smákökur en við bíðum þangað til amma barnanna kemur frá Póllandi. Sama með jólatréð (við bíðum eftir henni). Amma hefur ekki mörg tækifæri til að vera með okkur daglega svo jólaundirbúningur er okkar besti tími fyrir samveru. Við syngjum og hlustum á jólalög á pólsku og það er góð stund. Við borðum ekki kjöt á aðfangadag, heldur fisk, salat, pierogi, síld, súpu og eitthvað sætt. Á jóladag eða Gamlárskvöld eldum við oft eitthvað séríslenskt eins og til dæmis lambalæri, hamborgarhrygg og kartöflur.
Hvernig er aðventan - hefðir þar?
Við tökum þátt í öllum atburðum sem eru í boði í leik- og grunnskóla barnanna fyrir jólin, einnig jólatónleikum þar sem börnin okkar stunda nám í tónlistarskóla. Því miður truflar Covid sumt af þessu, eins og til dæmis áttum við núna að fara á leikhússýningu en henni var frestað. Það sem er jákvætt í þessum Covid tíma finnst mér rólegir dagar sem gefa okkur möguleiki á að njóta að samveru heima með fjölskyldu að elda, baka, föndra, spila og fara út ef veður leyfir það .
Hveru eru fyrstu jólin sem þú manst eftir? Áttu skemmtilega jólaminningu?
Ég man eftir jólum þar sem fjölskyldan mín var alltaf saman og eftir matinn á aðfangadag áttu öll börn að fara út t.d. með afa og bíða þangað til fyrsta stjarna sást á himninum. Þetta var gert til að fanga athygli barnanna á meðan foreldrar settu jólagjafir undir jólatréð. Þetta var mjög skemmtilegt.
Eftirminnilegasta jólagjöfin?
Ég sem barn fékk leikföng, föt og bækur sem jólagjafir en ég man ekki eftir neinu sérstöku, jú kannski eina Barbie dúkku. Núna langar mig að fá góðar bækur og góða íþróttaúlpu í jólagjöf til að geta farið út að hlaupa í vondu veðri.