Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Syngjandi smiður og Freyja framtönn
Laugardagur 16. nóvember 2013 kl. 15:00

Syngjandi smiður og Freyja framtönn

Hjónin Rúnar Guðmundsson og Kristín Kristinsdóttir rifu sig upp með rótum árið 2011 og fluttu með fjögur börn til Noregs, þar sem þau hafa búið síðan. Þar varð fimmta barn þeirra og eina dóttirin til. Rúnar hefur vakið athygli ytra sem syngjandi smiðurinn og Kristín skrifaði þar sína fyrstu bók, sem kemur út í þessum mánuði.

Gamall draumur rættist

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fyrir áttu þau hjón fjóra syni og í Noregi fæddist þeim svo dóttirin og Kristín sat ekki auðum höndum í fæðingarorlofi sínu heldur skrifaði barnabókina Ferðalag Freyju framtannar, sem forlagið Óðinsauga gefur út í þessum mánuði. „Ég notaði tækifærið núna þegar við kíktum til landsins og las upp úr bókinni fyrir yngstu nemendur Njarðvíkurskóla. Viðtökurnar voru svo ánægjulegar, enda eru börnin mjög upptekin af tannmissi á þessum aldri. Þau ætluðu öll að vera voðalega dugleg að bursta tennurnar,“ segir Kristín og að það hafi verið gott að láta gamlan draum rætast og að slíka bók hafi vantað. Sjálf kenndi hún nemendum 1. bekkjar í sama skóla í sjö ár. Aðspurð segir Kristín hafa komið til tals að gefa bókina út í Noregi en það komi betur í ljós síðar.

Frá Fitjum til Fitja
Rúnar hafði árin fram að hruni rekið lítið byggingafyrirtæki hér suður með sjó og en varð svo verkefnalaus. Kunningi Rúnars, sem starfaði á Fitjum í Noregi, hringdi í hann árið 2010 og bauð honum að koma þangað til að byggja þriggja hæða hús og nóg væri að gera. Rúnar sló til og fór út til að skoða sig um. Eftir það var ekki aftur snúið. Svo skemmtilega vildi til að fjölskyldan bjó áður á Fitjum í Reykjanesbæ. Rúnar hafði áður lokið söngnámi á Íslandi og sungið víða um land. „Svo var ég alltaf að syngja og það hvissaðist út að einhver smiður væri að syngja í vinnunni. Blaðamaður kom og vakti á því athygli. Allt í einu var það komið á NRK og svo á RÚV,“ segir Rúnar og hlær. Íslenskur íbúi á Fitjum, sem Rúnar hafði ekki vitað af, heyrði fréttina í útvarpinu þegar hann var staddur á Íslandi. Sá maður hafði síðan samband við þau hjón, reddaði þeim húsnæði og báðum atvinnu. Elsti sonur þeirra, sem núna er 19 ára, kom með þeim út í eitt ár en hann vildi heldur búa á Íslandi. Hin börnin eru 13, 10, 7 ára og eins árs. Kristín er menntuð sjúkraliði líka og hefur starfað við það um helgar og aðstoðað nemendur í grunnskóla á svæðinu.

Syngur með Grímuverðlaunahafa

Rúnar segist syngja heilmikið við ýmis tækifæri í Noregi, allt frá Haugasundi til Bergen. Ýmsir möguleikar eins og uppfærslur hjá Haugasunds-kammeróperunni. „Og svo er ég að syngja á tónleikum hingað og þangað, er mikið bókaður á jólatónleika og jólafagnaði. Orðinn bara töluvert þekktur á þessu svæði. Það vita ótrúlega margir hver óperusöngvarinn er,“ segir Rúnar og brosir. Hann segir gott að geta sungið og komið fram. Það gefi sér mikið. Margir séu hissa á að hann skuli ekki bara syngja eingöngu, en það sé ekki hægt að lifa á því eins og er. Framundan eru á Fitjum tónleikar Rúnars og Grímuverðlaunahafans Huldu Bjarkar Garðarsdóttur. Aðdragandinn að þeirri samvinnu var þegar Kristín var stödd í Bergen og komst að því að Hulda Björk væri þar með annan fótinn við söng. Rúnar hafði sungið með henni á tónleikum Kristjáns Jóhannssonar á Akureyri og bauð henni að syngja með sér á Fitjum í nóvember. „Hulda Björk tók svona líka vel í það og umboðsmaðurinn minn vill endilega gera eitthvað meira með það. Mjög ánægjulegt að fá að fá að syngja með henni.“

Sakna heita vatnsins og pítusósunnar

Rúnar og Kristín segja ekki litið á Íslendinga sem útlendinga í Noregi. Frekar eins og að þeir séu litli bróðir. Margt sé líkt, svo sem nöfn og sum orð og orðatiltæki í nýnorsku eins og „betra er seint en aldrei“. „Það er auðvelt að tilheyra samfélaginu hér. Við búum á stórri eyju sem heitir Stord og þar er MacDonalds,“ segir Rúnar til glöggvunar á fjöldanum sem þar býr. Kristín segir að þar búi margir Íslendingar, m.a. margir Suðurnesjamenn. „Fólk sem við þekktum ekki héðan áður eru góðir vinir okkar í dag.“ Þau segjast hafa lært að meta það sem er heima úr fjarlægð og að dvölin úti víkki út sjóndeildarhringinn. Það sé viss áskorun að læra norskuna og setja sig inn í allt þar. Íslendingar plumi yfrileitt sig vel í Noregi, enda með sterka sjálfsmynd og óragir við að vekja athygli á sér. „Norðmenn hugsa miklu meira þannig að allir séu jafnir og sparsemi sé dyggð. Skólinn sem ég starfaði hjá var nánast í niðurníslu þótt nægur peningur væri til staðar,“ segir Kristín. Þau eru þó sammála um að Íslendingar mættu líka læra ýmislegt af Norðmönnum. Þeir séu til dæmis ekkert að spá í hvað öðrum finnst um eigur og slíkt. Nægjusemi sé ríkjandi. Varðandi framtíðina segjast þau hjón vilji koma aftur þegar atvinnutækifærin verða betri á Íslandi. Þau eru vongóð um að þjóðin rísi á ný. „Við tökum eitt ár í einu. Söknum helst heita vatnsins og sundlauganna, pítusósu og íslenska skyndibitamatarins. Það er inn hitakútur á heimilinu og ef einhver er lengi í sturtu þá tæmist kúturinn,“ segir Rúnar að lokum.