Syngja sér til gleði og afslöppunar
„Flestu fólki finnst gaman að syngja ef það gefur sig að því,“ segir Þorvaldur Örn Árnason hjá Söngfélaginu Uppsiglingu sem starfrækt hefur verið í tuttugu ár. Félagar í söngfélaginu koma saman annað hvert föstudagskvöld, yfirleitt 12 til 20 manns. „Lagavalið gengur hringinn í hópnum. Hver og einn velur sér lag úr textamöppunum okkar og hópurinn syngur við undirspil. Þetta eru alls konar lög sem við syngjum, dægurlög, þjóðlög og líka frumsamin lög. Það er þó nokkuð af frumsömdu efni hjá okkur,“ segir hann.
Þorvaldur og eiginkona hans Ragnheiður Elísabet Jónsdóttir stofnuðu Söngfélagið Uppsiglingu þegar þau fluttu til Keflavíkur fyrir tuttugu árum en þau höfðu áður tekið þátt í þannig starfi í Reykjavík. Nú búa þau í Vogum. Þorvaldur segir það merkilega við starfið að þó að hópurinn sé ekki að reyna að syngja vel, þá sé útkoman alltaf furðu góð. „Það eru engar kröfur um söngkunnáttu, heldur bara gleði og afslöppun. Við syngjum fyrst og fremst fyrir okkur sjálf, en stöku sinnum með öðrum, þá ekki síst eldra fólki.“
Söngfélagið fór um síðustu helgi austur fyrir fjall, borðaði saman góðan mat í Hveragerði og tók svo þátt í mikilli söngsamkomu í félagsheimilinu Þjórsárveri í Flóahreppi þar sem 100 manns komu saman til þess eins að syngja sér til ánægju og segir Þorvaldur það hafa verið ógleymanlegt.
Næst syngur hópurinn saman í kvöld, föstudagskvöld, klukkan 20:00 í Skátaheimilinu í Keflavík og eru allir velkomnir, jafnt söngfólk sem og undirleikarar. Í gegnum tíðina hafa verið undirleikarar sem hafa spilað á gítar, banjó, mandólín og ýmis ásláttarhljóðfæri.