Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Syngdu mig heim
Þriðjudagur 30. september 2014 kl. 09:13

Syngdu mig heim

– Söngskemmtun í tilefni aldarafmælis Jóns frá Ljárskógum

Á þessu ári eru 100 ár liðin frá fæðingu skáldsins og söngvarans þjóðkunna Jóns frá Ljárskógum.  Í tilefni þess verður flutt vegleg söngdagskrá í Grindavíkurkirkju föstudaginn 3. október kl. 20:00.

Að tónleikunum stendur einvala lið tónlistarmanna sem flytur mörg þekktustu söngljóð skáldsins, þar á meðal nokkur lög sem M.A.-kvartettinn gerði fræg og heyrast nú í upprunalegri útsetningu þeirra í fyrsta skipti í 70 ár. Atriðin eru af ýmsum toga, einsöngur, dúettar, kvartett og kór en meðal flytjenda má nefna nýstofnaðan söngkvartett í anda M.A.-kvartettsins.

Söngdagskráin var fyrst flutt á hátíðartónleikum í Vídalínskirkju í Garðabæ síðastliðið vor fyrir fullu húsi en áætlað að tæplega þúsund manns hafi þar verið samankomin, og urðu þó margir frá að hverfa sökum plássleysis. Tónleikarnir hafa síðan verið endurteknir nokkrum sinnum víðs vegar um landið og hafa hvarvetna vakið mikla athygli og hlotið einróma lof viðstaddra.

Jón frá Ljárskógum var á sinni tíð einn vinsælasti tónlistarmaður landsins. Kornungur söng hann sig inn í hug og hjörtu þjóðarinnar ásamt félögum sínum í M.A.-kvartettinum sem telja má fyrstu dægurstjörnur Íslands, en þeir störfuðu á árunum 1932-1942. Auk þess að syngja með kvartettinum gerði Jón marga söngtexta sem slógu í gegn meðal landsmanna. Meðal þekktra söngljóða hans eru Sestu hérna hjá mér, Húmar að kveldi, Ó, Súsanna og Blærinn í laufi, svo aðeins fáeinir textar séu nefndir.

Flytjendur á tónleikunum eru: Unnur Birna Björnsdóttir, Una Dóra Þorbjörnsdóttir, Unnur Helga Möller, Guðmundur Davíðsson, Magnús Pétursson, Reynir Bergmann Pálsson, Björn Bjarnsteinsson og Sigurður Helgi Oddsson.

Aðgangseyrir er kr. 2000 en engin posi verður á staðnum.

Allir eru hjartanlega velkomnir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024