Sýna handverk um helgina
Um helgi verður haldin hin árlega handverkssýning í Íþróttahúsinu við Sunnubraut. Síðustu þrjú árin hefur handverksfólk af Reykjanesi og af landinu öllu sameinast á þessari sýningu og selt verk sín.
Gaman að koma við og skoða fjölbreytileikan sem finna má þar innanhúss og jafnvel fjárfesta í nokkrum gjöfum eða munum fyrir sjálfan sig.
Á fjórðatug sýningabása eru nú á sýningunni en þar að baki er fjöldinn allur af fólki enda hafa fjölskyldur og vinir tekið sig saman um að reka sýningarpláss.
Þá verður lögð áhersla á sýnikennslu en slíkt hefur ekki verið til boða áður. Gestir geta fengið kennslu í því hvernig á að bera sig að í útskurði, leirmótun, silkimálun og útsaumi svo eitthvað sé nefnt.
Búið er að opna kaffihús á svæðinu þar sem hægt verður að gæða sér á vöfflum og kaffi meðan Léttsveit tónlistarskólans spilar undir og síðdegis taka svo harmonikkutónar við.
Aðgangseyrir er 400 krónur fyrir fullorðna en gildir sem 200 króna úttekt á handverki. Sýningin er opinn laugardaginn 21. maí og sunnudaginn 22. maí frá kl. 12:00-18:00.
VF-mynd/Margrét