Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Sýna fjölbreytileika í gegnum list
Alexandra Sif Pétursdóttir og Sofia Oldfather við málverkið
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
fimmtudaginn 11. ágúst 2022 kl. 10:30

Sýna fjölbreytileika í gegnum list

Fallegt málverk af fólki frá hinum ýmsu menningarheimum má sjá vegg 88 Hússins í Ungmennagarði Reykjanesbæjar en veggurinn var eitt af verkefnum sumarsins í fimm vikna listasmiðju sem haldið var í 88 Húsinu í sumar. Þær Alexandra Sif Pétursdóttir og Sofia Oldfather Perez eru meðal þeirra ungmenna sem skreyttu vegginn en Sofia er hugmyndasmiðurinn bak við verkið.

Það er þátttakendum listasmiðjunnar hugleikið að sýna fjölbreytileika sem ríkir í fjölþjóðasamfélagi eins og Reykjanesbæ í gegnum list. „Hugmyndin bak við myndina kemur frá hugmyndavinnu okkar. Hugsunin er sú að við erum öll mennsk og mismunandi. Jafn vel þó við séum öll með mismunandi húðlit, mismunandi trúarbrögð, kynhneigð og kyngervi þá erum við öll manneskjur. Mig langaði að sýna mismunandi fólk með mismunandi bakgrunn og skilaboðin eru þau að við erum öll jafningjar á þessari plánetu,“ segir Sofia. 

Sofia kemur frá Puerto Rico og því eru skilaboðin á bak við verkið henni mikilvæg. „Ég lít aðeins öðruvísi út en týpískur Íslendingur. Ég hef samt sem áður náð vel með fólkinu hérna og þau með mér. Þess vegna langaði mig að miðla skilaboðunum um það að við erum öll eins innst inni við beinið. Við erum öll með hugsanir og tilfinningar og það er svo mikið af fólki sem gleymir því, svo það er gott að fá áminningu um það,“ segir Sofia og Alexandra tekur undir með henni: „Allir menningarheimar ættu að fá jafnmikla virðingu, þegar uppi er staðið skiptir jafnrétti og virðing gagnvart náunganum alltaf mestu máli.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Eitt af málverkunum við Ungmennagarð 88 Hússins

Aðspurðar hvað þær vilja gera með listina í framhaldinu segir Alexandra: „Ég hef alltaf haft gaman að list, ég mun örugglega vera að gera eitthvað í kringum hana. Hún verður kannski ekki að framtíðarvinnu en ég væri til í að vera með hana sem áhugamál.“ Sofia segist hins vegar ætla að reyna sitt besta að vinna við eitthvað listatengt í framtíðinni. „Ég ætla að fara á listnámsbraut í framhaldsskóla. Draumurinn minn er að geta verið á góðum launum við það að gera eitthvað listatengt. Það væri líka óskandi ef fólki myndi líka við listina mína og myndi kannast við nafnið mitt út af henni,“ segir Sofia.

Ungmenni í listasmiðjunni hjálpuðust að við að mála áhrifarík málverk